„Ég hlakka til að takast á við þetta verkefni,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, aðspurður hvernig honum væri innanbrjósts nokkrum mínútum eftir að hann tók við lyklavöldunum úr hendi Katrínar Júlíusdóttur. Hann boðar skattlækkanir strax á sumarþingi.
Spurði blaðamaður hvernig það væri að taka við jafn krefjandi embætti á jafn krefjandi tímum og nú eru fram undan í ríkisfjármálum.
„Það er rétt sem þú segir að verkefnið er mjög krefjandi, en ég hlakka til að takast á við það. Þetta ráðuneyti stýrir málum sem eru þvert á stjórnarráðið og fer jafnframt með efnahagsmálin. Að auki flyst fjármálamarkaðurinn nú yfir í fjármálaráðuneytið úr atvinnuvegaráðuneytinu, þannig að verkefnin eru stór og mikilvæg. Það sem skiptir mestu er að við náum góðum tökum á ríkisfjármálunum og vinnum okkur í átt til þess að hér verði afgangur á ríkissjóði. Grundvöllur þess er að atvinnulífið taki við sér og hagvöxtur aukist.“
Hyggjast betrumbæta verklag
- Þið ætlið að yfirfara áætlun í ríkisfjármálum, meta svigrúm til skattalækkana, bæta vinnu við fjárlagagerð og útfæra áætlun um losun gjaldeyrishafta. Hvenær verður þessum verkefnum lokið?
„Við byrjum á öllum þessum verkefnum strax. Varðandi það að bæta vinnu við fjárlagagerð er það viðvarandi verkefni. Það hefur staðið lengi yfir og við ætlum að halda því áfram, setja aukinn kraft í það. Menn þurfa ávallt að vera að endurskoða leiðir og betrumbæta verklag til þess að vera nákvæmari í áætlunum og standast betur fjárlög. Við ætlum að horfa til lengri tíma líka.
Við vonumst til að skapa fjárlagaramma þar sem stóra myndin getur staðið þrátt fyrir stjórnarskipti. Varðandi hagvöxtinn er það hlutverk stjórnvalda að grípa til örvandi aðgerða og um það er fjallað í stjórnarsáttmálanum. Við lítum á skattkerfið sem eitt verkfæri af mörgum til þess að örva hagkerfið og skapa hvetjandi umhverfi. Við munum beita skattalegum úrræðum eftir samráð við aðila vinnumarkaðarins. Það er eitt af verkefnum þessarar ríkisstjórnar að skapa meiri stöðugleika heldur en ríkt hefur. Í breiðu samhengi er ég að vísa til pólitísks stöðugleika og líka efnahagslegs stöðugleika. Það er ekki síst hér í þessu ráðuneyti sem menn leggja á ráðin um það hvernig því megi ná.“
Heimilin fari í forgang
- Hvenær verður búið að meta svigrúm til skattalækkana?
„Fyrstu aðgerðum okkar verður forgangsraðað í þágu heimila og þeirra sem hafa þurft að sæta skerðingum. Það verða þó ekki teknar stórar ákvarðanir í skattamálum á þessu sumarþingi, við ætlum að að gefa okkur ráðrúm til að leita eftir samráði um þau mál við aðila vinnumarkaðarins, eins og ég nefndi hér áðan.
Það er samt sem áður sérstakt markmið okkar að einfalda skattkerfið og lækka skatta þar sem við getum. Þar erum við sérstaklega að horfa á skattalækkanir sem geta létt undir með heimilunum í landinu, aukið ráðstöfunartekjur og hjálpað þeim að ná endum saman. Fyrstu aðgerðir í þá átt líta vonandi dagsins ljós strax á þessu sumarþingi.“
- Hvað með tryggingargjaldið?
„Það er eitt af því sem við munum endurskoða. Við teljum að atvinnulífið í landinu eigi inni lækkun þessa gjalds, en hún hefur ekki verið tímasett.“