„Ég hlakka til að eiga í góðu samstarfi við þig og ríkisstjórn þína og óska ykkur alls hins besta á kjörtímabilinu,“ segir í bréfi José Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra.
Eins og Sigmundur Davíð greindi frá í viðtali við Kastljós á fimmtudagskvöld biðu hans tvö bréf þegar hann tók við embætti forsætisráðherra. Annars vegar voru það heillaóskir frá Jemen og hins vegar bréf frá Barroso.
Sendinefnd Evrópusambandsins á Íslandi sendi fjölmiðlum afrit af bréfi Barroso en í því segist Barroso sannfærður um að undir stjórn Sigmundar Davíðs muni hið nána samstarf Evrópusambandsins og Íslands halda áfram að dafna, bæði í gegnum hina hefðbundnu samvinnu sem á sér stað innan ramma samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði sem og í öflugum tvíhliða samskiptum.
„Ég hef veitt því athygli hvað ríkisstjórn þín hefur gefið út varðandi aðildarviðræðurnar við ESB. Ég vil fullvissa þig um að framkvæmdastjórnin hefur, enn sem áður, einsett sér að starfa af heilum hug að hinu mikilvæga samabandi ESB og Íslands, á öllum sameiginlegum sviðum,“ segir José Manuel Barroso.