Engin sérstök lagaákvæði kveða á um bann við því að fjármálafyrirtæki óski eftir upplýsingum um fjárhagsstöðu maka skuldara. Þetta kemur fram í svari Fjármálaeftirlitsins við fyrirspurn Morgunblaðsins.
FME hefur borist ábending sem snýr að því að fjármálastofnun hafi óskað eftir fjárhagsupplýsingum um maka eða sambýlisfólk skuldara. Jón Egilsson hæstaréttarlögmaður skrifaði aðsenda grein í Morgunblaðið í vikunni þar sem hann segir frá málinu, sem hann vísaði til FME og úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Þar hafði Íslandsbanki óskað eftir fjárhagsupplýsingum um sambýliskonu skuldara sem bankinn átti í viðræðum við eftir gjaldþrot mannsins sem var í persónulegum ábyrgðum við bankann vegna fyrirtækja sinna.
Lögmaðurinn heldur því fram að með því að krefja sambýliskonuna um fjárhagsupplýsingar sé bankinn að gera hana að samskuldara.