Nóttin var með rólegra móti hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins, ef marka má tilkynningu um það helsta úr dagbók næturinnar. Tvær líkamsárásir voru tilkynntar en svo virðist sem um ágreining vegna ölvunar hafi verið að ræða og árásirnar minniháttar. Þá voru veggjakrotarar staðnir að verki.
Í dagbók lögreglu segir að upp úr miðnætti hafi lögregla haft afskipti af fjórum ungum karlmönnum, 18 og 19 ára. Þeir hafi verið að krota á veggi Listaháskólans við Sölvhólsgötu í Reykjavík. Þar sem veggjakrot er skráð sem skemmdarverk mega mennirnir búast við bótakröfu vegna kostnaðar sem fylgir því að afmá krot þeirra af veggjum skólans.