„Þú ert viðbjóður og ógeð“

„Þó að ég byggi að reynslu úr mínu starfi við að aðstoða þolend­ur heim­il­isof­beld­is þá datt ég sjálf í þenn­an pytt,“ seg­ir kona sem hef­ur í gegn­um árin unnið í vel­ferðar­kerf­inu og m.a. oft rætt við þolend­ur heim­il­isof­beld­is og aðstoðað kon­ur við að kom­ast í Kvenna­at­hvarfið. Samt gift­ist hún manni sem beitti hana al­var­legu of­beldi.

Kon­an er há­skóla­menntuð. Hún kynnt­ist manni þegar hún var kom­in á miðjan ald­ur, en hún bjó þá bæði yfir lífs­reynslu og starfs­reynslu sem ein­hverj­ir kynnu að halda að hefði átt að verða til þess að forða henni frá því að fara í sam­band við of­beld­is­mann. Hún kýs að koma fram und­ir nafn­leynd af ótta við hefnd manns­ins og af til­lits­semi við fjöl­skyldu hans.

Var með brotna sjálfs­mynd

„Ég hafði verið í sam­bandi áður og ég tel, þegar ég hugsa til baka, að ég hafi komið út úr því sam­bandi með brotna sjálfs­mynd. Bú­andi að allri þess­ari reynslu, mennt­un og vitn­eskju úr mínu starfi, þá dett ég samt ofan í þenn­an pytt og ég hefði hlegið að hverj­um þeim sem hefði sagt að þetta gæti líka komið fyr­ir mig.

Við gift­um okk­ur mjög fljótt, en samt var ég áður búin að sjá viss merki sem hefðu átt að hringja viðvör­un­ar­bjöll­um hjá mér. Þetta byrjaði með and­legu of­beldi. Hann átti t.d. til að skjóta snöggt á mann ein­hverj­um niður­lægj­andi setn­ing­um, en fór síðan strax að tala um eitt­hvað annað. Maður sat eft­ir og hugsaði: „Hvað er að ger­ast?“  Í sama and­ar­taki og hann braut mig niður þá kom eitt­hvað já­kvætt í fram­hald­inu, þannig að ég sat eft­ir og vissi hvorki í þenn­an heim né ann­an, en eft­ir sat niður­læg­ing og sárs­auki. Hann vissi full­kom­lega hvernig hann átti að fara að þessu. Það tók mig þó nokk­urn tíma að átta mig á því að þetta var al­ger­lega út­pælt og hann hafði fulla stjórn á þessu því þetta gerðist aldrei þegar við vor­um inn­an um annað fólk.“

„Hann lokaði mig inni“

Þið hafið samt ákveðið að gifta ykk­ur?

„Já, en hann sagði samt við mig viku fyr­ir gift­ing­una að hann væri ekki viss hvort hann langaði til að gift­ast mér. Á þess­um tíma­punkti hefði ég átt að stoppa og fara ekki lengra, en ég gerði það ekki vegna þess m.a. að mér fannst að mér væri að mistak­ast eitt­hvað í líf­inu ef ég gerði það og trúði því að þetta myndi lag­ast eft­ir gift­ing­una.“

Breytt­ist eitt­hvað til betri veg­ar eft­ir gift­ing­una?

„Nei, það gerði það ekki. Eft­ir gift­ing­una fór að bera á fjár­mála­of­beldi. Við vor­um með aðskil­inn fjár­hag. Ef það var eitt­hvað erfitt hjá mér þá sagði hann að ekki kæmi til greina að borga eitt­hvað fyr­ir mig. Hann var kannski að gefa mér föt, en ég átti á sama tíma ekki fyr­ir lyfj­um sem ég þurfti að taka og hann neitaði að hjálpa mér með þau.“

Hvernig reynd­ir þú að tak­ast á við þetta and­lega of­beldi?

„Það var mjög erfitt. Það var sama hvað ég gerði, það var aldrei það rétta í hans huga. Eitt­hvað sem gilti eina vik­una gat verið breytt í næstu viku. Maður vissi aldrei hvað maður mátti og hvað maður mátti ekki. Það var aldrei neitt nógu gott sem ég gerði nema þegar ég var búin að hrósa hon­um í há­stert.

Hann varð fljótt mjög ógn­andi. Hann lokaði mig inni. Þegar ég var eitt­hvað að mót­mæla hon­um og var orðin reið þá átti hann til að segja við mig: „Sjáðu hvernig þú lít­ur út. Farðu og kíktu í speg­il. Þú ert geðsjúk­ling­ur. Það ætti bara að leggja þig inn.“ Þetta hafði áhrif á mig og ég var far­in að velta fyr­ir mér hvort ég væri eitt­hvað klikkuð.“

Hafði beitt fleiri kon­ur of­beldi

Hvernig lokaði hann þig inni?

„Hann stóð í svefn­her­berg­is­h­urðinni og hleypti mér ekki út. Þegar maður er kom­inn í þessa stöðu þá þarf ekki meira til en að hann standi ógn­andi í dyr­un­um og banni þér að fara út. Maður lypp­ast niður í mátt­leysi og ótta.“

Velt­ir þú ekk­ert fyr­ir þér hvort þú vær­ir sú eina sem hann hefði beitt of­beldi?

„Jú, ekki löngu eft­ir að við gift­um okk­ur komst ég að því að hann hefði beitt aðrar kon­ur and­legu of­beldi og miklu lík­am­legu of­beldi. Ég sagði hon­um frá því, vegna þess að ég var að reyna að fá hann til að leita sér hjálp­ar. Hann sagði þá að ég væri „viðbjóður og ógeð“ vegna þess að ég væri að grafa eitt­hvað í fortíð hans. Eft­ir að við höfðum talað um þetta lét hann líka eins og þetta væri allt ósatt, þó ég hefði þetta allt staðfest.“

Hvernig leið þér þegar þú áttaðir þig á hvernig maður­inn var og að þú hefðir verið að gera mis­tök með því að gift­ast hon­um?

„Mér fannst þetta mjög niður­lægj­andi. Mér fannst ég vera að klúðra hlut­un­um. Ég hafði í mínu starfi unnið með þolend­um of­beld­is og hafði þá mynd af þeim að þetta væru ung­ar kon­ur, sem hefðu kannski búið við of­beldi í æsku, að þetta væru ein­stak­ling­ar í neyslu eða kon­ur sem hefðu orðið und­ir í líf­inu. Ég var hald­in for­dóm­um og mér fannst að þetta ætti ekki að koma fyr­ir mann­eskju eins og mig. Svo taldi ég mér trú um að þetta væri ekki eins slæmt og það var.

Auk and­lega of­beld­is­ins var hann einnig far­inn að beita mig lík­am­legu og kyn­ferðis­legu of­beldi. Hans þarf­ir gengu fyr­ir og ég átti að lúta þeim.

Fór að ein­angra sig

Á þess­um tíma var ég far­in að van­rækja skyld­ur mín­ar gagn­vart börn­un­um mín­um. Það hafði reynd­ar haf­ist meðan ég var enn í fyrra sam­bandi. Ég mætti ekki í af­mæli eða aðrar uppá­kom­ur. Ég kom kannski og stoppaði í fimm mín­út­ur vegna þess að ég óttaðist að gera eitt­hvað sem hann var ekki sátt­ur við.“

Varstu þá að ein­angra þig til að þókn­ast hon­um?

„Já, hann tók ákvörðun um við hverja ég mátti tala. Við eignuðumst vini, en síðan allt í einu voru þetta orðnir „drullu­sokk­ar og fá­vit­ar“ í hans huga og þá mátti ég ekki tala við þá leng­ur. Ég gat síðan ekki út­skýrt það fyr­ir fólk­inu hvers vegna ég væri hætt að hafa sam­band. Ég var þess vegna hætt að leggja í það að kynn­ast öðru fólki. Fjöl­skylda mín mátti held­ur ekki koma í heim­sókn nema að mjög tak­mörkuðu leyti.

Eft­ir að hann hóf að beita mig lík­am­legu of­beldi flúði ég einu sinni út á sokka­leist­un­um. Hann elti mig um all­an bæ. Ég fór til vin­konu minn­ar og var þar í viku. Þetta gerðist í nokk­ur skipti.“

Óttaðist að sjá dán­ar­til­kynn­ing­una í blöðunum

Reynd­ir þú aldrei að leita þér hjálp­ar?

„Jú, ég leitaði á end­an­um til Andrés­ar Ragn­ars­son­ar sál­fræðings. Hann á heiður­inn að því að hafa hjálpað mér út úr þessu. Hann byrjaði á því að ráðleggja mér að segja ein­hverj­um frá þessu. Ég sagði vin­konu minni frá og hélt áfram að koma í viðtöl til Andrés­ar. Hann hvatti mig í hvert skipti til að fara ekki til manns­ins aft­ur. Hann sagðist óttaðist á hverj­um degi að sjá dán­ar­til­kynn­ingu mína í blöðunum, en ég trúði aldrei að maður­inn væri þetta hættu­leg­ur, nema rétt á þeim augna­blik­um sem hann var að beita mig lík­am­legu of­beldi.

Ég fór hins veg­ar alltaf heim aft­ur. Ég fór síðan að segja fjöl­skyldu minni frá þessu smátt og smátt. Það varð því alltaf neyðarlegra og erfiðara fyr­ir mig að fara til hans aft­ur, því að það voru alltaf fleiri og fleiri sem vissu hvað var í gangi.

Við unn­um á tíma­bili sam­an og þar var líka allt ómögu­legt sem ég gerði og ástandið og niður­læg­ing­in urðu marg­falt verri. Hann vildi ekki að ég ynni ann­ars staðar vegna þess að þar gat hann ekki haft eft­ir­lit með mér. Eitt skiptið ákvað upp­komið barnið mitt að sitja með mér í vinn­unni heil­an dag. Ég skyldi ekk­ert í því hvað það var að gera þarna. Þegar við fór­um heim sagði barnið við mig: „Maður­inn er að springa, ég hélt að hann myndi drepa þig, en hann ger­ir það ör­ugg­lega ekki á meðan ég er hjá þér.“

Það sem ein­kenn­ir þenn­an mann er að hann get­ur ekki fundið til sam­kennd­ar með öðru fólki. Það skýr­ir að nokkru leyti hvers vegna hann finn­ur aldrei neina sök hjá sjálf­um sér.“

„Af­salaði mér öll­um eign­um mín­um“

Þú tókst síðan á end­an­um ákvörðun um að skilja við hann?

„Já, mér tókst á end­an­um að koma mér út úr þessu með því að af­sala mér öll­um eign­um okk­ar og taka á mig  skuld­ir. Þá fékkst hann til að skrifa und­ir skilnaðarpapp­ír­ana.“

Varstu þá end­an­lega laus við hann?

„Nei, eft­ir að við skild­um var ég sí­fellt að fara til baka vegna þess að ég vor­kenndi hon­um svo mikið. Ég var alltaf að hjálpa hon­um og bjarga hon­um því hann var og er í stöðugri sjálfs­vorkunn.“

Hvers vegna reynd­ist þér svona erfitt að slíta þig frá hon­um?

„Ég var auðvitað í bullandi meðvirkni. Ég hafði ekk­ert sjálfs­álit leng­ur. Ég vissi bók­staf­lega ekki hvort ég væri að koma eða fara, hvað ég hét, hvað ég gat eða kunni.

Þegar hann var í lagi gat hann verið mjög heill­andi og hafði marga kosti. Mér fannst líka að gagn­vart um­hverf­inu væri ég að tapa aft­ur ef ég færi frá hon­um.

Síðan má ekki gleyma því að það get­ur verið hættu­legra að fara en að vera áfram um kyrrt. Í þau skipti sem ég fór frá hon­um hellt­ust yfir mann alls kyns hót­an­ir og ónæði. Maður upp­lifði að það væri betri kost­ur á þess­um tíma að fara heim og reyna að halda friðinn.

Ég komst hins veg­ar út úr þessu vegna þeirr­ar hjálp­ar sem ég fékk frá Andrési og vegna þess að fjöl­skylda mín og vin­ir stóð fast við bakið á mér.“

„Ég hefði ekki hlustað á viðvar­an­ir“

Hvað finnst þér um að hér sé maður sem fer úr einu sam­bandi í annað og beit­ir all­ar kon­ur of­beldi?

„Það er hræðilegt. Ef ég frétti að hann sé kom­inn í nýtt sam­band mun ég reyna að vara viðkom­andi mann­eskju við hon­um.

Ég vil þó segja að ef ein­hver hefði varað mig við hon­um áður en ég gift­ist þá hefði ég ekki hlustað. Ég var ást­fang­in af þess­um manni og ég var ekki til­bú­in til að trúa neinu slæmu um hann.“

Leitaðir þú aldrei til lög­reglu?

„Nei, ég gerði það ekki. Þegar ég lít til baka þá skil ég ekki hvers vegna ég leitaði ekki til Kvenna­at­hvarfs­ins. Kannski var skömm­in bara of mik­il.“

Hvað viltu segja við kon­ur sem eru í of­beld­is­sam­bandi í dag?

„Ég hvet þær til að leita til sál­fræðings, Kvenna­at­hvarfs­ins eða til ein­hvers ann­ars sem er að aðstoða fólk í of­beld­is­sam­bandi. Mark­mið mitt með því að koma fram er að benda kon­um á skamm­ast sín ekki, þetta þjóðfé­lags­mein er að finna í öll­um stétt­um sam­fé­lags­ins.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert