45 ár frá hægri umferð

Að morgni sunnudagsins 26. maí árið 1968 var skipt yfir í hægri umferð á Íslandi, eða fyrir nákvæmlega 45 árum í dag. Breytingin tók gildi kl. 6 um morgun og lá að baki mikill undirbúningur, þrotlaus vinna og gríðarlegur kostnaður. Nú er svo komið að á u.þ.b. 72% alls vegakerfis heimsins er ekið hægra megin.

Á Vísindavef Háskóla Íslands er fjallað um þessi tímamót og kemur fram að Danir lögfestu hægri umferð 1793. Breytingin náði samt ekki til útnára konungsríkisins, Íslands, enda ekki af mikilli umferð að státa þar. Þá stóð til að breyta umferðinni í upphafi síðari heimsstyrjaldar en hernám Breta gerði þau áform að engu, enda var umferð hermanna mun meiri en heimamanna.

Það var ekki fyrr en árið 1968 að Íslendingar fetuðu í fótspor flestra annarra Evrópuríkja og ástæðan var einfaldlega sú að flestar þjóðir Evrópu og reyndar alls heimsins höfðu eða voru að færa umferðina yfir til hægri. Ári áður höfðu Svíar skipt yfir í hægri umferð og nutu Íslendingar góðs af reynslu þeirra.

Fyrst þegar settar voru reglur um það hvorum megin vegfarendur ættu að halda sig á vegum var algengast að það væri vinstra megin vegna vopnaburðar vegfarenda. Menn urðu að mætast þannig að atgeirinn snéri að þeim sem á móti kom og væri við hægri hönd. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert