„Hvort sem menn sjá krónuna fyrir sér sem gjaldmiðil Íslands til langrar framtíðar eða upptöku evru eða einhliða eða tvíhliða upptöku annarrar myntar þá þarf í öllum tilvikum að gera sömu hlutina. Það er að segja, það þarf að ná tökum á ríkisrekstrinum, skila afgangi af rekstri ríkisins, ná tökum á verðbólgunni, flytja út ennþá meira en við gerum nú og helst minna inn. Þetta er í öllum tilvikum undirbúningurinn sem þarf.“
Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun spurður út í þann hluta stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar sem kveður á um að krónan verði áfram gjaldmiðill Íslands næstu árin. Sagði hann það ekki þurfa að koma á óvart enda hafi það verið niðurstaða nefndar allra stjórnmálaflokka á Alþingi, aðila vinnumarkaðarins og Seðlabanka Íslands.
Sigmundur sagðist annars vera reiðubúinn að skoða allar leiðir í gjaldmiðlamálum eins og öðrum málum en það væri engu að síður ljóst að hvaða leið sem farin yrði þyrfti fyrst að koma efnahagsmálum þjóðarinnar og fjármálum ríkisins í réttan farveg og að minnsta kosti á meðan það væri gert yrði krónan gjaldmiðill landsins.