„Forsendurnar eru ekki til staðar fyrir þessari fjárfestingaáætlun eins og sakir standa en hins vegar er hægt að breyta forsendunum býsna hratt til hins betra með því að taka skynsamlegar ákvarðanir og nýta þau sóknarfæri sem við stöndum frammi fyrir,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
Ráðherrann var þar spurður út í fjárfestingaáætlun fyrri ríkisstjórnar sem gerði ráð fyrir framkvæmdum sem næðu inn á það kjörtímabil sem nú er hafið og hvort ný stjórn myndi halda sig við hana. Sigmundur sagði margt gott í fjárfestingaáætluninni og að því besta í henni yrði að sjálfsögðu fylgt eftir. Hins vegar félli hún undir það sem stæði í stjórnarsáttmálanum um mikilvægi þess að endurskoða fyrirliggjandi áætlanir út frá stöðu ríkissjóðs.
„Ég talaði nú aðeins um nýjustu upplýsingar um stöðu ríkissjóðs skömmu eftir kosningar og fyrrverandi fjármálaráðherrar brugðust illa við því. En ég geri ráð fyrir að nýr fjármálaráðherra muni kynna þessa stöðu og horfurnar eins og þær verða ef ekkert verður að gert áður en langt um líður,“ sagði hann. Taka yrði mið af því þegar ákvarðanir væru teknar um útgjöld.
Hins vegar væru sum útgjöld eða fjárfestingar þess eðlils að þær gætu skilað tekjum til lengri tíma litið. Komið væri inn á það í stjórnarsáttmálanum að þegar teknar væru ákvarðanir um útgjöld væru þau metin út frá áhrifum til langs tíma og heildarmyndinni. Sagði hann ennfremur mikilvægt fyrir ríkisstjórnina að vera opin fyrir góðum hugmyndum, sama hvaðan þær kæmu.