Aldrei fleiri stúdentar og doktorar

Aldrei hafa fleiri stúdentar útskrifast á einu skólaári úr framhaldsskólum …
Aldrei hafa fleiri stúdentar útskrifast á einu skólaári úr framhaldsskólum á Íslandi. mbl.is/Kristinn

Færri útskrifuðust af framhaldskólastigi skólaárið 2010-2011 en árið á undan sem rekja má til færri brautskráninga úr starfsnámi. Stúdentar hafa hins vegar aldrei verið fleiri og sömu sögu er að segja um doktora.

Þetta kemur fram í yfirliti Hagstofunnar.

Alls brautskráðust 5.584 nemendur af framhaldsskólastigi með 6.218 próf skólaárið 2010-2011. Það er fækkun um 201 nemanda frá fyrra ári, eða 3,5%. Stúlkur voru nokkru fleiri en piltar meðal brautskráðra eða 53,8% nemenda. Fækkunina má rekja til færri brautskráninga úr starfsnámi á framhaldsskólastigi. Þeim fækkaði um 362 frá fyrra ári í 2.957, eða um 10,9%. Miklu munar um færri sveinsprófs brautskráningar, eða 560 á móti 644 skólaárið áður. Karlar voru tæplega 80% þeirra sem luku sveinsprófi.

Brautskráningar með iðnmeistarapróf voru 188, 13 fleiri en árið á undan (7,4% fjölgun). Karlar voru 69,7% meistara og einn af hverjum fjórum voru 40 ára eða eldri þegar þeir brautskráðust sem iðnmeistarar.

Aldrei áður hafa fleiri stúdentar 

Alls útskrifuðust 3.232 stúdentar úr 34 skólum skólaárið 2010-2011; 67 fleiri en skólaárið áður (2,1% fjölgun). Ekki hafa áður brautskráðst fleiri stúdentar á einu skólaári og aldrei áður hafa svo margir skólar brautskráð stúdenta. Hlutfall stúdenta af fjölda tvítugra hækkaði umtalsvert frá fyrra ári, úr 63,6% í 69,2%, og hefur ekki verið hærra. Konur voru 57,2% nýstúdenta.

Á háskóla- og doktorsstigi útskrifaðist 4.281 nemandi með 4.322 próf skólaárið 2010-2011. Tæplega 65% þeirra sem luku háskólaprófi voru konur. Brautskráðum háskólanemendum fjölgaði um 4,8% frá fyrra ári. Alls luku 1.181 meistaragráðu og hafa ekki verið fleiri á einu skólaári. Nemendum sem luku diplómunámi að lokinni Bachelorgráðu fjölgaði um 18,2% og voru 527.

Aldrei fleiri doktorar

Brautskráðir doktorar voru 48 á skólaárinu, 26 karlar og 22 konur. Aldrei áður hafa fleiri lokið doktorsprófi á einu skólaári en mest höfðu brautskráðst 33 doktorar 2009-2010. Rúmlega einn af hverjum fjórum doktorum voru 40 ára eða eldri þegar þeir luku doktorsnámi og þrír af hverjum fjórum voru 30 ára eða eldri. Rúmlega einn af hverjum þremur doktorum skólaárið 2010-2011 voru erlendir ríkisborgarar, 17 alls.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert