Fjölga liðskiptaaðgerðum á Skaganum

Áformað er að fjölga liðsskiptaaðgerðum á Heilbrigðisstofnun Vesturlands.
Áformað er að fjölga liðsskiptaaðgerðum á Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Ásdís Ásgeirsdóttir

„Það skapaðist ákveðið fjárhagslegt svigrúm þegar við endurskipulögðum öldrunarþjónustu á heilbrigðisstofnuninni með því að færa öldrunarsjúklinga úr legurýmum á dagdeildir,“ segir Guðjón S. Brjánsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vesturlands (HVE). „Við höfum ákveðið að nýta þetta svigrúm til að fjölga liðskiptaaðgerðum hjá okkur, en við þurftum að fækka þeim á undanförnum árum.

Við höfum horft upp á lengingu biðlista eftir þessum aðgerðum á þessum niðurskurðarárum. Þeir sem hafa verið á biðlista hvað lengst hafa þurft að bíða í á annað ár,“ segir Guðjón. „Árið 2009 framkvæmdum við á bilinu 120-130 aðgerðir en urðum að rifa seglin og féllum undir 100 aðgerðir á ári. Núna ætlum við að reyna að snúa þessari þróun við,“ segir Guðjón, og vonast til að á næstu árum verði fjöldi aðgerða nær því sem hann var árið 2009.

Guðjón segir liðskiptaaðgerðir kostnaðarsamar, þar sem gerviliðirnir kosta í kringum hálfa milljón. Aðallega sé um að ræða skipti á hnjá- og mjaðmaliðum. HVE henti hins vegar mjög vel undir svona aðgerðir, þar sem starfsfólkið þar hefur mikla reynslu og þjálfum í að framkvæma þær, auk þess sem ekki sé þörf á gjörgæsludeild fyrir sjúklingana eftir aðgerðirnar.

„Efniskostnaðurinn er það sem stendur aðallega í okkur. Við höfum starfsfólk og skurðstofur til að framkvæma fleiri aðgerðir en við gerum núna. Við þyrftum bara að breyta aðeins niðurröðun á skurðstofurnar til að bæta við kannski tíu aðgerðum til viðbótar við þessa boðuðu aukningu áður en við þyrftum að bæta við mannskap.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert