„Komið yfir vitleysingastigið“

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is

„Í kjölfarið á þessu hef ég verið hvött til að leita réttar míns og ég hef íhugað að fara með þessar árásir til lögreglu,“ segir Vigdís Hauksdóttir, alþingismaður í kjölfarið á því að hún komst að því að einstaklingur sem hefur hrellt hana á internetinu virðist ekki vera til, en því til stuðnings bendir hún á að myndin sem viðkomandi birtir af sér er sláandi lík mynd af norskum píanóleikara, svo ekki sé meira sagt.

Þessu til frekari stuðnings bendir Vigdís á að einstaklingur þessi var áður titlaður verkfræðingur hjá Orkuveitu Reykjavíkur, en vinur Vigdísar staðfesti við hana að enginn með því nafni sem viðkomandi gefur upp væri að störfum hjá Orkuveitunni.

„Ég er núna að kanna leiðir og leita ráðgjafar um hvernig ég get leitað réttar míns í þessu máli og hversu langan tíma það myndi taka,“ segir Vigdís. „Ég vil fá að vita hvort hægt sé að rekja þessar árásir á einhverja ip-tölu.“

Ófrægingarherferð af þessari stærðargráðu hljóti að vera skipulögð

Vigdís sagðist halda þessa ófrægingarherferð af þeirri stærðargráðu að hún hljóti að vera skipulögð. „Þetta er komið yfir vitleysingastigið. Ég hef fylgst með þróun þessara ummæla undanfarin fjögur ár og þetta er orðið ofbeldi. Sömu sex til átta frasarnir eru endurteknir aftur og aftur af mismunandi aðilum yfir langan tíma, þannig að ég held að þetta sé skipulegt vegna mynstursins sem hefur verið í þessu,“ segir Vigdís. 

„Og ef þú segir það sama nógu oft þá fer fólk að trúa því. Það heldur enginn út í fjögur ár einhverja svona herferð. Það er eitthvað stærra á bakvið þetta og ég held að það sé verið að greiða fyrir þetta,“ segir Vigdís. 

„Það skjálfa einhverjir í kvöld“

„Á þessum fjórum árum hefur þetta stigmagnast og ljótari og ljótari orðum hnýtt inn í. Það sem virðist hins vegar hafa farið mest í taugarnar á þeim sem standa að þessu er að ég hef bara hrist þetta af mér og vaxið við mótlætið frekar en hitt. Ef þetta er til þess að þagga niður í mér þá hefur þetta þveröfug áhrif, því að ég eflist frekar við þetta en hitt,“ segir Vigdís.

„Þó svo internetið sé stundum notað á þann hátt sem hér hefur gerst þá hefur það þann kost að það gleymir aldrei og hægt að skoða aftur í tímann það sem hefur komið fram og rekja það,“ segir Vigdís. „Þannig að það skjálfa örugglega einhverjir í kvöld.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert