Á handsleða upp Eyjafjallajökul

Leifur á sleðanum sem verður farskjóti hans upp á jökulinn. …
Leifur á sleðanum sem verður farskjóti hans upp á jökulinn. Sleðinn er einungis knúinn handafli Leifs

Leifur Leifsson, fjallasleðamaður, ætlar að gosstöðvunum á Eyjafjallajökli 14. júní næstkomandi. Það væri ekki frásögu færandi nema fyrir þær sakir að Leifur er hreyfihamlaður fyrir neðan mitti og mun draga sig upp með handafli á sérútbúnum sleða.

„Við fengum nú þessa hugmynd þegar í ljós kom að Hvannadalshnúkur væri of sprunginn til að hægt væri að fara hann á sleðanum,“ segir Leifur Leifsson, fjallasleðamaður. „Ég ætlaði á hnúkinn en það er ekki í boði í bili. Mér fannst ómögulegt að fara ekkert á fjall í ár þannig að við ákváðum að taka bara Eyjafjallajökul í staðinn.“

Leifur segist fara á jökulinn á sleða, handknúnum á heimasmíðuðu handhjóli. Sleðinn virkar þannig að band er dregið út úr spili nokkur hundruð metra í senn og hakað niður. Síðan tekur Leifur til við að draga sleðann áfram.

Æfir tvisvar á dag sex daga vikunnar

„Það þarf gífurlegar æfingar fyrir svona. Núna er ég á fullu að æfa í Hreyfingu. Ég er líka í þolæfingum í Laugardalshöllinni. Ég æfi að meðaltali tvisvar á dag þessa dagana. Dagurinn byrjar á prógrammi sem ég setti saman ú æfingunum hjá Hreyfingu og Boot Camp-bókinni, bók sem strákarnir í Boot Camp bjuggu til handa mér. Síðan er ég nýbyrjaður að æfa hjá krökkunum í CrossFit Reykjavík. Það eru góðar alhliða styrktar- og úthaldsæfingar þar,“ segir Leifur. „Ég minnka samt æfingarnar núna áður en við leggjum af stað 14. júní. Þetta mun taka mig einhverja tvo daga ef allt gengur upp. Svo renni ég mér bara niður,“ segir Leifur og hlær.

Þarf átta vana fjallgöngumenn með sér

Leifur segir helsta vandann í dag að finna fólk sér til aðstoðar, því til að hann geti lokið för sinni þyrfti hann helst átta vana fjallamenn til að fylgja sér upp jökulinn. „Birgir Freyr Birgisson hefur séð um þá hlið verkefnisins. Ef einhverjir geta komið með mér, þótt ekki nema einn dag af þessum dögum sem það tekur mig að fara þetta, þá mega þeir endilega setja sig í samband við Birgi, annaðhvort í síma 821-4600 eða gegnum birgirfreyr@gmail.com,“ segir Leifur. „Fólkið þarf að geta séð um sig sjálft á fjöllum og að hafa andlegu hliðina í það að geta staðið uppi á jökli og beðið eftir mér meðan ég dreg mig áfram. Formið hjá þessu fólki skiptir kannski ekki öllu máli.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert