Aurskriða lokar veginum um Köldukinn

Ófært er um Köldukinn vegna aurskriðu og verða þeir sem …
Ófært er um Köldukinn vegna aurskriðu og verða þeir sem ætla til Húsavíkur að aka um Fljótsheiðina. mbl.is/Rax

Norðurlandsvegur, vegur 85, er lokaður við Ystafell í Köldukinn í Þingeyjarsýslu vegna aurskriðu sem féll á veginn í nótt. Aurskriðan var 50-100 metra breið að sögn lögreglunnar á Akureyri og um einn metri að þykkt.

Að sögn lögreglu var tilkynnt um skriðuna á milli klukkan sex og sjö í morgun en ekki er vitað nákvæmlega hvenær hún féll. Mikil úrkoma hefur verið á þessu svæði síðasta sólarhring en að sögn lögreglu er þarna gott veður núna og hefur stytt upp.

Vegfarendur sem ætla til Húsavíkur þurfa nú að aka Fljótsheiðina sem er heldur lengri leið.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er snjór á Steingrímsfjarðarheiði og á Þröskuldum. Á Austurlandi eru hálkublettir á Oddsskarði.

Varað er við sauðfé á vegum í Fljótum í Skagafirði.

Vakin er athygli á að nú er allur akstur bannaður á flestum hálendisleiðum vegna aurbleytu og hættu á skemmdum.

Á Þverárfjalli, vegi númer 744, er vegur mjög ósléttur og hraði því tekinn niður í 70 km/klst. Ásþungi er takmarkaður við tíu tonn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert