Viðurkenndur skoðunarmaður frá Svifflugsambandi Danmerkur er væntanlegur hingað um næstu helgi til að framkvæma svonefnda CAMO-skoðun á átta til níu íslenskum svifflugum.
Það hefur ekki gerst áður í 77 ára sögu Svifflugfélags Íslands, segir Kristján Sveinbjörnsson, formanns félagsins, í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag. Hér á landi er enginn sem hefur leyfi eða sérþekkingu til að CAMO-skoða svifflugur.
Rúmlega 30 skráðar svifflugur eru á landinu. Þar af flugu 22 árið 2008 en aðeins níu fóru á loft í fyrra. Lofthæfi þeirra sem eru með slíkt rennur út í lok júní nk. „Það er svo mikil pappírsvinna við að halda lofthæfinu,“ sagði Kristján um ástæðuna. „Einkaaðilarnir gefast upp meðan félagið berst við þetta. Við eyðum 200-300 tímum á ári í pappírsvinnu sem ekki þurfti áður.“