Fjöldi bænda á Norður- og Austurlandi verður fyrir þungu höggi fjárhagslega vegna kals í túnum í vetur. Ljóst er að margir verða fyrir milljónatjóni og áætla má að heildartjónið nemi hundruðum milljóna króna.
Í fréttaskýringu um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að á sumum bæjum eru 70-80% ræktunar ónýt vegna kals og ekkert annað að gera en að plægja túnin og rækta að nýju til að reyna að fá einhverja uppskeru í haust.
Meðal kúabú þarf 50-60 hektara tún. Ef kalið hefur eyðilagt gróðurinn í 35 hekturum þarf viðkomandi bóndi að kosta rúmum 5 milljónum til endurræktunar. Samt er óvissa með uppskeru grænfóðurs í haust vegna þess hversu seint er hægt að sá, enda klaki enn að fara úr jörðu og erfitt að vinna að ræktun.
Bjargráðasjóður bætir tjón bænda vegna kals, eftir því sem fjármunir hans hrökkva til. Sjóðurinn er ekki digur og getur því ekki bætt tjón bænda nema að sáralitlu leyti, nema til komi sérstök framlög frá ríkisvaldinu eins og eftir eldgosin, segir meðal annars í fréttaskýringunni.