„Stjórnarlaun hjá Stapa lífeyrissjóði hafa verið umtalsvert lægri en hjá öðrum sambærilegum sjóðum undanfarin ár. Þau voru lækkuð um 15% eftir hrun og hafa haldist óbreytt síðan. Stapi hefur því dregist verulega aftur úr öðrum,“ segir Kári Arnór Kárason, framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs, í samtali við mbl.is spurður út í gagnrýni sem sett var fram á heimasíðu Verkalýðsfélags Akraness í gær á hækkun launa stjórnarmanna sjóðsins. Þar segir að laun stjórnarmanna í Stapa hafi hækkað um 87% frá árinu 2011 eða úr 42.750 krónum á mánuði í 80 þúsund krónur fyrir óbreytta stjórnarmenn.
Kári segir að mjög auknar kröfur hafi verið gerðar til stjórnarmanna í lífeyrissjóðum undanfarin ár og skerpt á ábyrgð þeirra. Meðal annars með hæfismötum hjá Fjármálaeftirlitinu, kröfum um að sækja árleg námskeið og fleiru. Þetta hafi gert það að verkum að erfitt hafi reynst að manna stjórn lífeyrissjóðsins. Fyrir vikið hafi verið farið út í að skoða hvernig greitt væri fyrir slík störf almennt. Staðreyndin sé sú að laun stjórnarmanna hafi verið lægst hjá Stapa á síðasta ári þrátt fyrir að hann sé fjórði stærsti lífeyrissjóður landsins. Ákveðið hafi verið að miða við meðaltalið hjá stærstu sjóðunum á síðasta ársfundi Stapa sem séu 80 þúsund krónur á mánuði fyrir óbreytta stjórnarmenn.
Stjórnarlaunin hækkað um 22,7% en ekki 51%
Fjórir aðrir lífeyrissjóðir eru teknir fyrir í umfjöllun Verkalýðsfélags Akraness, Lífeyrissjóður verzlunarmanna þar sem sagt er að laun stjórnarmanna hafi hækkað um 51% frá 2011, Frjálsi lífeyrissjóðurinn þar sem hækkunin er sögð hafa verið 30%, Gildi lífeyrissjóður þar sem launin hafi hækkað um 36% og Festa lífeyrissjóður þar sem hækkunin hafi verið 28%. Guðmundur Þ. Þórhallsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, segir hið rétta vera að laun stjórnarmanna hjá sjóðnum hafi hækkað um 22,7% frá 2011 en ekki 51%. Bendir hann ennfremur á að launin hafi verið lækkuð um 10% í lok árs 2008 og að sú lækkun hafi staðið óbreytt til ársins 2011.
Ásgeir Thoroddsen, stjórnarformaður Frjálsa lífeyrissjóðsins, segir að árið 2005 hafi laun stjórnarmanna verið 75 þúsund krónur á mánuði en þau hafi síðan verið lækkuð um 10% í kjölfar bankahrunsins og hafi sú lækkun gilt til 2011. Sjóðsfélagar hafi ákveðið að hækka laun stjórnarmanna á síðasta ári. Tekið hafi verið mið af helmingshækkun launavísitölu frá 2005 sem hafi verið 30%. Á ársfundi sjóðsins á þessu ári hafi verið ákveðið að launin yrðu óbreytt.
Gefur ranga mynd af þróun stjórnarlauna
Hliðstæða sögu er að segja af Gildi lífeyrissjóði að sögn Árna Guðmundssyni, framkvæmdastjóra sjóðsins. Hann segir framsetningu Verkalýðsfélags Akraness ranga mynd af þróun stjórnarlauna hjá Gildi. Þannig hafi laun óbreyttra stjórnarmanna verið 75 þúsund krónur árið 2008 og síðan lækkað um 10% í lok ársins. 2009-2011 hafi launin verið 55 þúsund krónur en á síðasta ári hafi þau verið hækkuð í sömu tölu og árið 2008 og í ár í 86 þúsund krónur. Hækkunin frá 2008 sé því 14,7%.
Gylfi Jónasson, framkvæmdastjóri Festa lífeyrissjóðs, segir að það sé rétt að stjórnarlaun hafi hækkað hjá sjóðnum um 28% árið 2012. Hin vegar hefðu þau ekki hækkað þá frá árinu 2007 en hins vegar lækkuð um 5% árið 2009 í kjölfar bankahrunsins. Stjórnarlaunin hefðu þannig hækkað um 22% frá árinu 2007. „Nú veit ég ekki hvað launavísitalan hækkaði mikið frá vori 2007-vors 2012. Kæmi ekki á óvart ef það væri eitthvað umfram 22%.“