Árni Pétur Jónsson, forstjóri Iceland á Íslandi, segir Iceland-verslanirnar ekki vera á förum frá Íslandi, þó svo að verslun keðjunnar við Fiskislóð verði lokað í upphafi næsta mánaðar. Fram hefur komið að Nettóverslun mun opna í því húsnæði sem nú hýsir Iceland.
„Niðurstaða okkar eftir skamma veru á Grandanum er sú að húsnæðið er allt of stórt fyrir þá tegund verslunar sem við rekum þar. Því til útskýringar er meðalstærð Iceland-verslana á Englandi í kringum 400 til 500 fermetrar, en húsið við Fiskislóð er rúmir 1.500 fermetrar,“ segir Árni. „Það er nærri því þrefalt stærra en venjuleg Iceland-verslun. Því tókum við ákvörðun um að fara út úr húsnæðinu.“
Árni segir að leit standi yfir að hentugu húsnæði til að opna nýja Iceland-verslun, en ljóst sé að hún verði ekki á svipuðum slóðum og sú sem til stendur að loka. „Það er það mikið af verslunum þar að bekkurinn er fullsetinn. Við erum ekki komnir með neina staðsetningu, en munum áframa reka verslunina við Engihjalla.“
Ekkert er ljóst um hvenær ný Iceland-verslun opnar, en að sögn Árna verður það ekki fyrr en í fyrsta lagi með haustinu.
Frétt mbl.is: Nettó opnar á Grandagarði