Íslendingar hætti við olíuleit

Ari Trausti Guðmundsson.
Ari Trausti Guðmundsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég horfi ekki á þetta út frá íslenskum hagsmunum. Þ.e.a.s. hvort að Ísland ætli að verða kolefnisfrítt land eða ekki. Ég er að spá í heiminn sem slíkan,“ segir Ari Trausti Guðmundsson jarðfræðingur um þá afstöðu sína að Íslendingar eigi að hætta við olíuleit og mögulega olíuvinnslu á Drekasvæðinu.

Ari Trausti fylgdist með málþingi um Norðurslóðir í hátíðarsal Háskóla Íslands í gær en þar voru frummælendur þeir Sauli Niinistö, forseti Finnlands, og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.

Að loknum pallborðsumræðum flutti Ari Trausti stutta ræðu þar sem hann skoraði á forsetana tvo að setja hugsanlega olíuvinnslu á nýjum svæðum á norðurslóðum í samhengi við loftslagsvána. 

Svaraði hvorugur forseti þeirri áskorun þegar þeir brugðust við fyrirspurnum og stuttum ræðum úr sal.

Sporni gegn frekari hlýnun

Eftir að Ari Trausti tók til máls lýsti Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri yfir þeirri skoðun sinni að eðlilegt væri að stefna að olíuvinnslu á norðurslóðum. Benti hann á að nú þegar væru mörg ríki að nota kol og jarðgas úr leirsteini til að anna orkuþörf en báðir þessir orkukostir fælu í sér meiri losun gróðurhúsalofttegunda en bruni olíu og jarðgass.

Ari Trausti segir óábyrgt af Íslandi að stefna að olíuvinnslu þegar hann er spurður út í ummæli orkumálastjóra.

„Það er talið að um 15% af þekktum olíulindum heims og 30% af þekktum gaslindum heims séu inni á norðurskautssvæðinu. Það er þegar byrjað að nýta þetta. Til dæmis eru Rússar og Norðmenn þegar byrjaðir.

Ef við ætlum að komast af án þess að hækka meðalhitastig á jörðu um 3-4 gráður umfram það sem nú er að þá verðum við að snúa mjög hratt baki við aukinni notkun á jarðefnaeldsneyti og þá er það óábyrgt af Íslands hálfu að byrja vinnslu á þessum orkugjöfum.

Þótt einhver segi sem svo að við megum ekki búa til skort á olíu og gasi í heiminum vegna þess að þá hlaupi þjóðirnar yfir í miklu verri kol að þá er jú hægt að brúa þetta bil með því að fara annað en upp á norðurskautssvæðið til að vinna það sem þarf til að brúa bilið þar til önnur tækni er búin að leysa þetta af hólmi sem væntanlega gerist.

Þannig að mér finnst engin rök, hvorki með eða á móti vinnslu olíu og gass á Jan Mayen-svæðinu, að við séum að búa til einhvers konar skort á olíu og gasi með því að gera það ekki,“ segir Ari Trausti og vísar til þróunar endurnýjanlegra orkugjafa.

Íslendingar sýni dug og þor

- Þannig að við eigum að láta hugsanlega olíu og gas kyrrt liggja?

„Já, mér finnst það. Við eigum að sýna þann dug og það þor að láta þetta kyrrt og liggja og hugsa sem svo að við getum hagnast, ef við viljum orða það svo, á því að kynna fyrir heiminum, eins og við höfum gert, notkun annarra orkugjafa, og þá á ég fyrst og fremst við jarðhitann vegna þess að alþjóðastofnanir hafa sýnt fram á að það er einn vænlegasti kosturinn til að bregðast við hlýnun jarðar, að fara yfir í jarðhitann. Þar erum við á heimavelli.

Ég vil líka benda á að Alþjóðabankinn áætlar að ef við notum meira en 20% af þekktum olíu- og gaslindum jarðar að við stefnum þá í gríðarleg umhverfisslys. Við megum ekki fara yfir þau mörk. Þá horfum við á milli 2 og 4 stiga hækkun á meðalhita jarðar.

Umræðan hér heima er of þröng. Hún snýst fyrst og fremst um tækifærin [á norðurslóðum] sem eru vissulega mikil. Við getum nefnt siglingar, fiskveiðar, ferðaþjónustu og náttúrulega námugröft hvers konar. Það er einblínt mjög sterkt á hann en ekki notaður nægur tími til að benda á vandkvæðin sem öllu þessu fylgja og hversu hættulegt ástandið er núna, þegar magn koldíoxíðs í andrúmsloftinu er komið yfir 400 milljónustu hluta, tala sem hefur ekki sést í þrjár milljóir ára.

Jafnvel þótt við bregðumst fljótt við tekur gríðarlega langan tíma að vinda ofan af þessari þróun. Það eru engin merki þess núna að sé verið að taka á þessu vandamáli. Engin.“

Óæskileg þróun í loftslagsmálum

- Þannig að þú telur að það stefni ekki í rétta átt í loftslagsmálum?

„Nei. Alls ekki. Á engan máta. Vissulega er verið að vinna að nýjum orkugjöfum og annað slíkt. En losunin, þessi alvarlega losun sem þegar er farin að sýna sig í mikilli súrnun hafanna, þiðnun sífrerans og gríðarlegri minnkun á hinum mikilvæga varnarskyldi sem hafísinn er, annars vegar á norðurhvelinu og hins vegar jökullinn á suðurhvelinu.

Ef þessir hlutar taka að minnka mjög alvarlega að þá fer hlýnunin á stökk vegna þess að þetta eru svo mikilvægir hlutar af varnarskyldi jarðar,“ segir Ari Trausti sem tekur þar með undir það sjónarmið Bills McKibben, eins þekktasta baráttumanns Bandaríkjamanna í loftslagsmálum, að alþjóðalofstslagshreyfingin sé að verða undir í baráttunni.

En McKibben lýsti þessu yfir í samtali við Morgunblaðið fyrir skömmu.

Hafa ekki samþykkt olíuvinnslu á Drekasvæðinu

Árni Þór Sigurðsson, fráfarandi formaður utanríkismálanefndar og einn stefnusmiða VG í utanríkis- og umhverfismálum, sat einnig málþingið í Háskóla Íslands í gær.

Hann segir aðspurður það vera oftúlkun að fráfarandi stjórn hafi fallist á olíuvinnslu á Drekasvæðinu. 

„Það sem hefur verið samþykkt er sem sagt rannsóknir á Drekasvæðinu. Það er að segja, hvaða möguleikar eru á svæðinu. Hvort að þarna finnist olía eða gas í vinnanlegu magni eða ekki. Það er í raun og veru fyrsta skrefið. Við töldum einfaldlega mikilvægt að fá vísindalega vitneskju um það hvað þarna er raunverulega á ferðinni. 

Síðan er bersýnilegt að menn þurfa að taka afstöðu til þess ef það síðan kemur í ljós að þarna eru nýtanlegar auðlindir. Þá þurfa menn auðvitað að taka afstöðu til þess hvort það er réttlætanlegt að fara í slíka vinnslu og þá á hvaða forsendum og hvernig umhverfisþáttunum er háttað. Það er augljóst að það er gerður mikill fyrirfari á framkvæmdum og olíuvinnslu á þessu svæði, að minnsta kosti í okkar röðum, í mínum flokki. Það eru miklir fyrirvarar á því, jafnvel þótt menn segi að við þurfum að vita um hvað málið snýst og hvort þetta er raunverulegt eða ekki og raunsætt. Inn í það kemur ekki aðeins hin vísindalega þekking og hvort auðlindin er nýtanleg eða ekki heldur þá líka efnahagslegir og umhverfislegir þættir.“

- Þú telur því að það sé ekki búið að setja af stað ferli sem verði ekki stöðvað úr þessu?

„Nei. Það tel ég alls ekki. Ég tel alls ekki að það sé þannig. Það á alveg eins við þegar við erum að nýta okkar auðlindir á landi, jarðvarma eða annað, að það eru stundaðar rannsóknir á hlutunum fyrst áður en afstaða er tekin til þess hvort auðlindir eru nýttar eða ekki. Það er síðan tekin afstaða um hvaða skilmálar eru þá settir í kringum slíkt. Þannig að ég tel að það sé ekkert öðruvísi en það í sjálfu sér,“ segir Árni Þór.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert