Verð á flugfargjöldum frá Íslandi hefur lækkað lítillega en nú er flogið beint til fjölmargra staða sem ekki er flogið til að vetri til. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Dohop.
Þegar könnunin var fyrst gerð, fyrir um hálfu ári, var aðeins samkeppni á flugi til þriggja áfangastaða. Kaupmannahafnar, Ósló og London. Nú hafa Amsterdam, Alicante, Barcelóna, Berlín, Manchester, Helsinki, New York, Mílanó, Düsseldorf, Vín, Zürich, París og fleiri borgir bæst við.
„Heilt yfir lækkar verð á flugi lítillega, eða um 1,23%. Mest er verðlækkunin á flugi til London, 12,39%, en verð á flugi til Alicante virðist vera að hækka. Líkleg skýring er sú að ódýrustu sætin eru að seljast upp, enda er þetta afar vinsæll áfangastaður. Primera Air flýgur reglulega til Alicante og er yfirleitt ódýrari en hin flugfélögin á þessari flugleið en flugin eru þó of strjál til að teljast með í útreikninga Dohop,“ segir í fréttatilkynningu.
Að Ósló undanskilinni er ódýrast að fljúga með lágfargjaldaflugfélögunum þegar það er hægt. WOW air skákar öðrum þegar kemur að verði frá Íslandi en það getur þó breyst ef fólk hyggst ferðast með farangur, segir í tilkynningu.
Þannig er Icelandair ódýrara til Kaupmannahafnar fyrir farþega með eina tösku, þó flugmiðinn virðist ódýrari með WOW air. Sama á við með flug til Berlínar, þar sem WOW air er ódýrast þar til töskugjaldið bætist við. easyJet er ódýrast til Manchester og er jafnframt eini kostur Íslendinga á beinu flugi til Edinborgar. Hjá WOW air, easyJet og Norwegian þarf að greiða sérstaklega fyrir töskur utan handfarangurs.