Önnur aurskriða féll í Köldukinn í morgun. Sú var mun minni en sú sem féll í gær. Skriðan í morgun lokaði ekki veginum en Vegagerðin vinnur að því að hreinsa skurði og veita vatni af veginum.
„Þetta er miklu minna í sniðum en í gær,“ segir Gunnar Bóasson, verkstjóri Vegagerðarinnar á Húsavík. Hann segir skriðuna ekki hafa náð inn á veginn en hins vegar hafi hún stíflað skurð og nú sé verið að hreinsa úr honum til að veita vatni af veginum.
Þurrt er á svæðinu en Gunnar segir mikinn snjó uppi í fjallinu. Hann sé nú að bráðna með þessum afleiðingum.
Skriðan í morgun féll um 10 metra norðan við húsin á Ystafelli.
Frétt mbl.is: Aurskriða þeyttist yfir veginn