Segir ESB-stefnuna óskýra

Árna Þór Sigurðsson
Árna Þór Sigurðsson mbl.is/Jim Smart

„Það sem stendur í stjórnarsáttmálanum um Evrópumálin er miklu almennara en ég reiknaði með. Ég reiknaði með að þar yrði mjög ákveðið og afdráttarlaust kveðið á um hvað ríkisstjórnin ætlaði að gera í þessu máli,“ segir Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG og fráfarandi formaður utanríkismálanefndar, sem gagnrýnir óskýr ákvæði sáttmálans.

„Það er hægt að túlka það á margvíslegan veg. Og það er ekki út frá stjórnarsáttmálanum hægt að segja að viðræðunum við Evrópusambandið sé beinlínis hætt og alls ekki hægt að draga þá ályktun að Ísland sé ekki lengur umsóknarríki.“

„Það sem ég merki af yfirlýsingum forystumanna stjórnarflokkanna í kjölfar kosninganna er að hléið sem var gert á viðræðum í vetur haldi áfram og að þær verði ekki teknar upp að nýju nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

- Felur það í sér að vinna í samningsköflum sem búið er að opna sé í gangi enn þá?

„Já, ég reikna með að það verði sett á ís.“

- Það er þá ekki búið að því?

„Ekki að mér vitanlega. Ég náttúrulega veit ekki hvaða fyrirmæli hafa verið gefin í stjórnsýslunni. En mér finnst það líklegt að það verði sett á ís.

Það vekur síðan athygli [í stjórnarsáttmálanum] að það er engin tímasetning á þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna eða ekki. Það er bara sagt að það eigi að vinna úttekt á stöðunni og þróuninni innan ESB. Það er svo sem ágætt að fá úttekt á því og fá umræðu um það í þinginu.“

- Þannig að þér finnst ekki hægt að lesa það úr orðalagi stjórnarsáttmálans að það beri að stöðva ESB-viðræðurnar strax? Lestu það út úr sáttmálanum að það eigi að láta viðræðurnar lognast út af?

„Já. Ég túlka það þannig. Ég hafði átt von á miklu afdráttarlausara orðalagi. Þess vegna kom það mér svolítið á óvart. Mér sýnist að stjórnarflokkarnir vilji stíga mjög varlega til jarðar.“ 

- Hvaða skilaboð hefur fengið frá Brussel að undanförnu?

„Ég hef svo sem ekki verið í neinu sambandi við neina þar. Þannig að ég hef ekki fengið nein skilaboð. Ég hef tekið eftir því sem menn eru að segja þar að menn bíða eftir skilaboðum frá íslenskum stjórnvöldum og hugsanlega einhverjum fundum.

Ég reikna nú með að íslensk stjórnvöld þurfi að eiga fundi með forystu Evrópusambandsins. Bæði um viðræðurnar og svo samskiptin almennt. Því burtséð frá þessari aðildarumsókn eigum við auðvitað mikil samskipti við Evrópumsambandið.“

- Þannig að þú túlkar það sem svo að það sé líka skilningur ESB að orðalag stjórnarsáttmálans sé almennt og þarfnist skýringar?

„Já. Ég verð ekki var við annað en að það sé almennur skilningur.“

- Hver verður afstaða VG til ESB-málanna á nýju kjörtímabili nú þegar ríkisstjórnarsamstarfið vð Samfylkinguna, einarðasta ESB-flokk landsins, er að baki? Þetta mál hefur augljóslega tekið mjög á VG og Regnboginn m.a. orðið til sem klofningsframboð úr flokknum.

„Af því að þú vísar í klofningsframboð frá okkar út af þessu máli að þá fékk það í sjálfu sér ekki breiðan stuðning. Skoðanakannanir hafa nú sýnt að meirihluti af okkar stuðningsfólki, kjósendum, vill ljúka þessum aðildarviðræðum og það varð líka niðurstaðan á okkar landsfundi í vetur. Niðurstaðan var að viðræðunum yrði lokið og sú nðurstaða borin undir þjóðina. Þar vorum við að tala um um það bil innan árs, eða eitthvað þess háttar.

Þannig að ég reikna með að við myndum styðja slíkt ferli ef menn tækju ákvörðun um að ljúka viðræðum og taka þjóðaratkvæðagreiðslu um þá niðurstöðu, ef það væri að gerast innan árs, eða eitthvað þess háttar. Ég reikna með að menn myndu styðja slíkt.

Nú veit ég ekki hvort að það verður uppleggið hjá nýju stjórnarflokkunum. Mér finnst líklegra að þeir haldi á þessu ís og verði með þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort það eigi að halda þeim áfram eða ekki.

Tímasetningin á því liggur ekki fyrir og mér finnst að það megi draga þá ályktun af orðum forystumanna stjórnarflokkanna að þeir vilja frekar draga það fremur en hitt.“

- Er þá Vinstrihreyfingin - grænt framboð með eða á móti aðild eins og stendur?

„Já. Okkar samþykkt á landsfundi var mjög skýr. Við ítrekuðum okkar andstöðu við að Ísland gerðist aðili að Evrópusambandinu. Við viljum hins vegar að þetta mál verði útkljáð á lýðræðislegan hátt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það var niðurstaða landsfundarins að besta aðferðin til þess væri að taka afstöðu til samningsniðurstöðu.“

- Hefur óróinn á evrusvæðinu og hugsanleg þróun í átt til bankabandalags haft einhver áhrif á afstöðu VG?

„Já. Það hefur augljóslega áhrif á afstöðu þjóðarinnar. Við sjáum það í skoðanakönnunum og hvernig þær eru að þróast. 2009, studdu eftir hrunið, var afstaða þjóðarinnar til aðildar önnur en hún hefur verið um langt skeið. Við vitum það. Við sjáum á þróun skoðanakannanna að það er augljóst að það sem hefur verið að gerast í Evrópu hefur haft áhrif á afstöðu þjóðarinnar.“

- Hefur þessi þróun haft áhrif á ykkur, stefnusmiði VG í utanríkismálum?

„Nei. Í sjálfu sér ekki á þessa meginafstöðu okkar. Við teljum hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins heldur en innan,“ segir Árni Þór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert