Aðalskipulag Reykjavíkurborgar fyrir árin 2010 til 2030 verður kynnt á fundi í Tjarnarsal Ráðhússins í dag. Í skipulaginu kenni ýmissa grasa, en athygli vekur að í fyrsta skipti er ekki gert ráð fyrir nýjum úthverfum kringum borgina, auk þess sem ráðgert er að reisa 14.000 íbúa byggð í Vatnsmýrinni. Þá segir að gert sé ráð fyrir að hlutur almenningssamgangna aukist úr 4% í 12%, og hlutdeild gangandi og hjólandi úr 21% í 30%. Skipulagið í heild sinni má nálgast hér.
„Skipulagið snýst að okkar mati um lífsgæði borgarbúa,“ segir Ólöf Örvarsdóttir, skipulagsstjóri Reykjavíkur. „Með því að þétta byggð og að gera ráð fyrir öðrum samgöngumátum en einkabílnum þá geti orðið mikill ávinningur af því, meðal annars fjárhagslegur. Ýmsir útreikningar styðja við það.“
Ólöf segir skipulagið jafnframt hugsað út frá því að setja manneskjuna í öndvegi. „Við leggjum meiri áherslu á almenningsrými og að vernda byggðina sem er fyrir og þegar byggt er innan um eldri byggð þá sé það gert á forsendum þeirrar byggðar sem fyrir er,“ segir Ólöf. „Í skipulaginu er líka í fyrsta skipti sett umhverfis- og auðlindastefna.“
Í skipulaginu er einnig sett byggingarlistastefna fyrir borgina og stefna um hámarkshæð húsa, en ekki er gert ráð fyrir að hús hærri en fimm hæðir fái að rísa.
Ólöf segir að hverfi borgarinnar fái meiri athygli í nýja skipulaginu. „Við gefum út aðalskipulagskort fyrir hvert hverfi þannig að fólk geti séð þróunina í sínu hverfi. Í framhaldinu verður unnið hverfisskipulag fyrir hvert hverfi, en sú vinna hefur verið í undirbúningi undanfarin tvö ár.“
Mikið samráð hefur verið haft við vinnu skipulagsins, en það hefur tvisvar verið kynnt í hverfum borgarinnar. „Skipulagsferlið hefur tekið langan tíma, fyrstu skrefin voru tekin árið 2006 og það hefur unnið með skipulaginu frekar en hitt. Það er alls ekki það versta nema síður sé að taka góðan tíma í að vinna skipulag fyrir heila borg. Tillagan hefur þroskast og þróast mikið og vel á þessum langa tíma.“
„Fyrir mig sem fagmanneskju, þar sem skipulagsvinna er að stórum hluta pólitísk stefnumótun þá eru ótrúleg tíðindi að þetta hefur verið unnið með kjörnum fulltrúum allra flokka allan þennan tíma. Gegnum allar þessar sviptingar hefur þráðurinn í aðalskipulagsvinnunni verið sá sami.“
Helstu uppbyggingarsvæði íbúðabyggðar í borginni á skipulagstímanum verða Vatnsmýrin, Elliðaárvogur og svæðið við gömlu Reykjavíkurhöfn. „Við erum að horfa á þéttingu innávið og koma í veg fyrir frekari útþenslu borgarinnar, en við gerum ráð fyrir byggingu á öðrum svæðum en grænum svæðum eins og kemur fram í skipulaginu. Við höfum nú þegar gert samkomulag við innanríkisráðuneytið um landið í Skerjafirðinum og eigum skipulag að Valssvæðinu og Háskólann í Reykjavík þar sem verður heimilt að byggja, meðal annars stúdentaíbúðir við HR,“segir Ólöf
„Hafnarsvæðið er svo gríðarlega spennandi staður þar sem búið er að vinna rammaskipulag og erum með deiliskipulag á síðustu metrunum þar. Það verða fjölbreytt hús á svæðinu frá Sjóminjasafninu að Hörpunni, mjóar götur og mjög spennandi skipulag. Slippurinn fær hins vegar að halda sér eins lengi og þeir vilja. Við byrjum bara hægt og rólega á þessu svæði,“ segir Ólöf.
Í skipulaginu er gert ráð fyrir nokkrum stærri samgöngumannsvirkjum, en þeirra á meðal má nefna Sundabraut og göng undir Öskjuhlíð. Ennfremur er möguleikinn á að setja Miklubraut í stokk viðraður.
„Sundabrautin var látin halda sér, en það er ekkert annað á teikniborðinu en hefur verið. Framkvæmdum við hana var frestað um 10 ár í fyrra, en við gerum ráð fyrir að það verði farið í einhvern undirbúning á skipulagstímabilinu. Um Miklubrautina má nefna að þegar gerðir voru útreikningar á hagkvæmni þess að setja hana í stokk kom í ljós að slík framkvæmd væri mjög hagkvæm, með öðruvísi landnýtingu og með því að stytta vegalengdir milli vinnustaðar og heimilis. Þetta þyrfti bara að skoða betur.“
Ólöf segir heildarhugsunina að baki skipulaginu að vinna það út frá grænum sjónarmiðum, mikið sé horft á þéttingu byggðar þar sem land er takmörkuð auðlind.