Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins fór í heldur óvenjulegt útkall í morgun. Kona ein á Álftanesi keypti sér nýverið kött og í nótt spígsporaði hann um eldhúsinnréttinguna til að skoða sig um á nýja heimilinu. Ekki vildi betur til en svo að kötturinn datt niður í holrúm bak við innréttinguna.
Í morgun sat konan í mestu makindum og borðaði morgunmatinn þegar hún heyrði mjálm í kettinum. Hún áttaði sig fljótlega á því að kötturinn var kominn á bak við innréttinguna. „Ég stóð í björgunaraðgerðum í allan morgun,“ sagði Bryndís Þóra Jónsdóttir í samtali við mbl.is. Eftir árangurslausar björgunartilraunir hringdi hún í slökkviliðið og óskaði eftir ráðum.
Fljótlega birtust fjórir vaskir slökkviliðsmenn og hófust þeir þegar handa við að bjarga kettinum. „Þeir rifu út ísskápinn, boruðu gat og byrjuðu svo að saga,“ segir Bryndís. Við þetta varð kötturinn skelfingu lostinn og var þá brugðið á það ráð að setja teygjulak niður í holrúmið í von um að kötturinn myndi klifra upp að sjálfsdáðum. Þegar björgunarmennirnir hófust handa við sögunina á ný, varð kötturinn mjög hræddur og stökk upp úr innréttingunni.
„Við áttum fótum okkur fjör að launa til að verða ekki fyrir honum,“ sagði einn slökkviliðsmannanna, en kötturinn Andvari er 12 kíló. Bryndís er slökkviliðsmönnunum afar þakklát og segir mennina eiga mikið þakklæti skilið fyrir hjálpina. „Þeir björguðu deginum, kettinum og geðheilsu okkar,“ sagði hún, glöð í bragði.