Mikið líf í Kolgrafarfirði

Undanfarnar vikur hefur verið mikið líf í Kolgrafarfirði. Fyrr í vetur bárust fregnir af firði fullum af dauðri síld, en nú er staðan önnur. Að sögn Róberts Arnars Stefánssonar, líffræðings á Náttúrustofu Vesturlands, hefur síldin venjulega verið farin af svæðinu á þessum tíma árs þegar sjórinn fer að hlýna.

„Það sem er óvenjulegt núna er það að ástandið virðist viðhaldast, síldin er áfram og því er mikið fæðuframboð fyrir fuglana,“ segir Róbert. Því er mun meira fuglalíf í firðinum þessa dagana en hefur verið undanfarin ár.

Súlan fylgir fuglinum

„Þetta var farið að róast í seinni hluta marsmánaðar eftir hasar vetrarins,“ segir Róbert. Þá kom aftur á móti ný síldarganga, allt fylltist af fugli og hefur síldin ekki yfirgefið svæðið síðastliðna tvo mánuði. „Síldin fer greinilega út og inn fjörðinn, því súlan fylgir henni.“

Róbert segir fuglalífið mikið sjónarspil en mikið er um súlu á svæðinu. Einnig má sjá höfrunga ná sér í síld. „Þetta er jákvætt, að minnsta kosti fyrir þá fugla sem veiða þarna,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert