Viðvörunarljós farin að blikka

Júlíus Vífill Ingvarsson, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur.
Júlíus Vífill Ingvarsson, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur. Júlíus Vífill Ingvarsson

„Þegar meirihlutinn getur ekki svarað einfaldri fyrirspurn um kostnað er eðlilegt að viðvörunarljós fari að blikka. Eitt helsta áhugamál Besta flokksins og Samfylkingarinnar í borgarstjórn hefur verið að róta í stjórnkerfinu og breyta því m.a. til þess að losa um starfsskyldur borgarstjórans. Því hefur verið flaggað að tilgangurinn sé að ná fram rekstrarlegri hagkvæmni,“ segir Júlíus Vífill Ingvarsson, oddviti borgarstjórnarhóps Sjálfstæðisflokksins.

Hann segir að þegar spurt sé svo í hverju sú hagkvæmni felist verði fátt um svör. „Hlutlausir sérfræðingar sem tóku út stjórnsýslu borgarinnar gátu ekki séð að stjórnkerfisbreytingar hefðu þjónaði neinum tilgangi og hefðu ekki lækkað kostnað. Það er eitthvað mikið að ef ekki er hægt að svara sjálfsagðri spurningu um rekstrargjöld. Upplýsingarnar hljóta að liggja í bókhaldinu og eru vonandi ekki feimnismál,“ segir hann.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu í dag fram fyrirspurn svohljóðandi þar sem fyrirspurn þeirra frá 31. janúar síðastliðnum var ítrekuð:

„Fyrir fjórum mánuðum lögðu borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram formlega fyrirspurn í borgarráði um þann kostnað sem fallið hefur vegna margvíslegra breytinga á stjórnkerfi borgarinnar á þessu kjörtímabili. Enda þótt upplýsingar varðandi þetta hljóti að liggja fyrir hefur meirihluti Besta flokks og Samfylkingar ekki enn þá lagt fram svar í ráðinu. Markmið stjórnkerfisbreytinganna var að auka hagkvæmni en í skýrslu úttektarnefndar á stjórnsýslu borgarinnar er það gagnrýnt að tíðar stjórnkerfisbreytingar hafi valdið óvissu hjá starfsmönnum án þess að þær hafi leitt til sjáanlegrar rekstrarlegrar hagkvæmni. Fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks frá 31. janúar á þessu ári er ítrekuð.“

Þann 31. janúar var óskað eftir upplýsingum um hver heildarkostnaður væri orðinn vegna allra breytingar sem gerðar hefðu verið á skipuriti borgarinnar og skipulagi Ráðhússins, sviða og deilda á kjörtímabilinu. Var óskað eftir því að teknar yrðu saman vinnustundir starfsfólks vegna vinnu við skipulagsbreytingar, tilgreindur væri kostnaður vegna starfslokasamninga, vegna nýrra ráðningasamninga, þar með talið auglýsingakostnaður og ráðgjöf vegna ráðninga, utanaðkomandi sérfræðikostnaður og annað sem tengist skipulagsbreytingunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert