Í grein á vef Eiðfaxa er því haldið fram að dómarar á sýningu kynbótahrossa á Selfossi í vikunni hafi farið niðrandi orðum um knapa og hesta í hátalarakerfi keppninnar, en gleymst hafði að slökkva á hljóðnema milli kynningar hrossa í braut og upptalningar einkunna.
Í grein Sigurðar Arnar Ágústssonar, Af gengisfellingu kynbótadómara, á vefnum eidfaxi.is lýsir Sigurður atvikinu svo:
„Á sýningu kynbótahrossa á Selfossi nú í vikunni gerðist sá einstaki atburður að í dómhúsi gleymdist að slökkva á hljóðnema milli kynninga hrossa í braut og upptalningar einkunna - svo að gestir og gangandi máttu heyra hvað fór dómurum á milli þegar hestar komu í braut. Þetta var held ég einsdæmi. Alltsvo að það gleymdist að loka fyrir hljóðnemann milli kynninga og upplesturs dóma. Þarna gafst hestamönnum gott tækifæri til að sjá hvernig hross eru dæmd. Hér er um gríðarlegt hagsmunamál að ræða fyrir alla hestamenn.“
Sigurður vekur einnig máls á því að enginn fréttamiðill hestaíþrótta og hestamennsku hafi fjallað um málið og segir einnig:
„Ef umtal sem þetta er daglegt brauð í dómhúsi, sem hlýtur eiginlega að vera af viðbrögðum annarra dómara að ráða, þá er greinilegt að taka þarf til hendinni er kemur að framkvæmd kynbótadóma. En einu viðbrögð þeirra sem fara með þennan málaflokk, a.m.k. opinberlega, eru engin. Sem þá væntanlega þýðir að þeim finnist þetta allt í lagi. Ef ekki, þá er hér í gangi stórkostleg þöggun og meðvirkni sem er að skaða heila atvinnugrein.
Hvar er aðhald við dómara? Hver sér um gæðastýringu? Nei, hér þurfa menn að gyrða sig í brók og skoða þessi mál upp á nýtt. Er ekki kominn tími til að menn í forsvari fyrir hestamennsku í landinu sýni kjark og hefji hestamennsku upp fyrir einstaka menn og hætti að verja staðnað og úrelt kerfi?“
Grein Sigurðar má lesa í heild sinni hér: Af gengisfellingu kynbótadómara.