Landvernd hefur sent frá sér ályktun þar sem ákvörðun sveitastjórnar Þingeyjarsveitar um að vera á móti hugmyndum um að virkja Skjálfandafljót er fagnað. Segir jafnframt að Skjálfandafljót sé á meðal verðmætustu svæða landsins með tilliti til landslags og víðerna.
Í ályktuninni segir:
„Landvernd fagnar ítrekun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar um að sveitarfélagið sé á móti hugmyndum um að virkja Skjálfandafljót eins og fram kom á fundi sveitarstjórnar 16. maí síðastliðinn.
Faghópur I í 2. áfanga rammaáætlunar mat Skjálfandafljót á meðal verðmætustu svæða landsins m.t.t. landslags og víðerna. Virkjanir í ánni, Fljótshnjúksvirkjun og Hrafnabjargavirkjun, myndu þurrka Aldeyjarfoss út sem löngum hefur þótt einn af fallegri fossum landsins með einstakri stuðlabergsumgjörð. Stórum gróðursvæðum á hálendinu yrði að auki sökkt með uppistöðulónum. Í umsögn 13 náttúruverndarsamtaka við drög að tillögu um vernd og orkunýtingu landsvæða (rammaáætlun) lögðu samtökin til að allar virkjanahugmyndir á vatnasviði Skjálfandafljóts yrðu færðar í verndarflokk.
Með tilkomu nýrra náttúruverndarlaga opnast möguleiki á að friðlýsa heil vatnakerfi, ekki síst lítt snortin og ómiðluð vatnasvið. Landvernd hvetur Þingeyjarsveit til að styðja hugmyndir um friðlýsingu Skjálfandafljóts með stuðningi af nýjum náttúruverndarlögum. Til þess að þetta megi gerast, verður þó að færa allar virkjanahugmyndirnar í Skjálfandafljóti úr biðflokki yfir í verndarflokk rammaáætlunar.“