Landeigendur vilja virkjun

Bjarnarflag.
Bjarnarflag. mbl.is

Landeigendur Reykjahlíðar ehf. í Mývatnssveit skora á ríkisstjórnina að beita sér fyrir því að lokið verði nauðsynlegum undirbúningi vegna nýrrar 45 MW gufuaflsvirkjunar í Bjarnarflagi og að framkvæmdir hefjist sem fyrst. Þetta jarðhitasvæðið er í landi Reykjahlíðar og Landsvirkjun hefur orkunýtingarrétt á stórum hluta þess, segir í tilkynningu frá landeigendum.

„Ferðamönnum hefur fjölgað í Mývatnssveit ár frá ári og ferðaþjónustan þar er umfangsmeiri en nokkru sinni fyrr. Störf eru samt mun færri í sveitinni en var áður en rekstur Kísiliðjunnar var lagður af 2004. Fjöldi Mývetninga þarf enn að sækja atvinnu um langan veg og því skiptir miklu máli að nýta þau tækifæri sem gefast til atvinnusköpunar og uppbyggingar á svæðinu.

Margar hugmyndir eru uppi um hvernig nýta megi jarðvarma í Bjarnarflagi til atvinnusköpunar í sveitinni og má þar til dæmis nefna ylrækt og framleiðslu þörunga.

Árið 2004 féllst Skipulagsstofnun á nýja virkjun í Bjarnarflagi með allt að 90 MW framleiðslugetu, í úrskurði sínum um mat á umhverfisáhrifum. Hún taldi að virkjunin hefði ekki í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Mat á umhverfisáhrifum, og þær upplýsingar sem síðan hafa komið fram um svæðið, voru forsenda þess að Bjarnarflagsvirkjun var flokkuð sem álitlegur orkunýtingarkostur í rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Vert er að halda því til haga að nú er stefnt að því að reisa 45 MW virkjun í Bjarnarflagi, helmingi minna orkuver en Skipulagsstofnun miðaði við í úrskurði sínum forðum,“ segir í fréttatilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert