Þjóðfundur hinsegin fólks á morgun

Þjóðfundur hinsegin fólks fer fram á morgun í Tjarnarsal Ráðhúss …
Þjóðfundur hinsegin fólks fer fram á morgun í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur.

Samtökin '78 standa nú á tímamótum, en félagið fagnar 35 ára afmæli í ár. Mikið hefur áunnist í baráttu samtakanna fyrir mannréttindum hinsegin fólks á síðustu áratugum og margar þeirra lagabóta sem barist hefur verið fyrir á þessu tímabili, komist til framkvæmda. Stjórn samtakanna hefur á þessum tímapunkti ákveðið að boða til þjóðfundar hinsegin fólks sem haldinn er undir yfirskriftinni Samtakamátturinn. Þar er ætlunin að skoða starfið, forgangsraða og ákveða stefnumál framtíðarinnar.

Fundurinn verður haldinn í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur og er haldinn í samstarfi við Reykjavíkurborg. Húsið opnar klukkan 13.30, dagskrá hefst klukkan 14.00 og stendur fundurinn sjálfur til klukkan 17.30. Til að auðvelda sem flestum þátttöku á fundinum verður einnig boðið upp á enskumælandi borð. Barnapössun á staðnum. Hjólastólaaðgengi er í Ráðhúsinu og aðstoð s.s. við blinda og sjónskerta í boði.

Forsvarsmenn Samtakanna '78 segja að það stefni í góða mætingu á fundinn og að mikilvægt sé að fá stóran og fjölbreyttan hóp þátttakenda til fundarins til að tryggja að stefnumótun samtakanna til næstu ára taki mið af röddum mismunandi hópa.

Enn er hægt að skrá sig á samtokin78.is/samtakamatturinn en aðstandendur fundarins segja að engum verði vísað frá fundarstað þó þeir mæti óskráðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka