Úlfur átti besta tónverkið

Úlfur Hansson er hér með hljóðfærinu Ohm sem hann smíðaði.
Úlfur Hansson er hér með hljóðfærinu Ohm sem hann smíðaði. Ómar Óskarsson

Tónskáldið Úlfur Hansson vann í dag til fyrstu verðlauna á Alþjóðlega tónskáldaþinginu í flokki 30 ára og yngri. Tónverk Úlfs, So very strange, var framlag Ríkisútvarpsins sem sendi verkið í keppnina sem fram fór í Prag að þessu sinni.

Ríkisútvarpið valdi sjálft lag Úlfs til þess að fara í keppnina og sigurinn kom honum nokkuð á óvart. Hann telur það eilítið óvenjulegt að keppt sé í tónlist en er jafnframt stoltur af sigrinum. „Þetta kom mér svolítið á óvart. En það er afskaplega skemmtilegt að fá þessa viðurkenningu úr hinum klassíska heimi. Þetta hefur þá þýðingu að ég fæ að skrifa fyrir sinfóníuhljómsveit ríkisútvarpsins í Frakklandi, og það er ótrúlega spennandi tækifæri fyrir mig. Svo eru útvarpsstöðvar í Evrópu skuldbundnar til þess að spila lagið í eitt ár,“ segir Úlfur.  

 Ohm notað í verkinu

Lagið So very strange er af fyrstu plötu hans White mountain sem kom út í mars víða um heim. „Þetta er raftónlist í bland við hefðbundin hljóðfæri, með söng,“ segir Úlfur. Hann er þegar hafið vinnu að næstu plötu og stefnir að mastersnámi í Bandaríkjunum í tónsmíðum.  

Í verkinu notar Úlfur meðal annars hljóðfærið Ohm sem hann smíðaði sjálfur og var það hluti af lokaverkefni hans við nám í Listaháskóla Íslands. „Þetta er tölvustýrt rafhljóðfæri sem byggir á rafsegulbogun sem knýr 26 strengi innanfrá,“ segir Úlfur skilmerkilega.

Fyrst haldið 1954

Tónskáldaþingið var fyrst haldið árið 1954. Þingið er skipulagt af Alþjóðatónlistarráðinu (International Music council) með stuðningi Uncesco, vísinda-, menntunar- og menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Þingið er vettvangur til kynningar á nýjum verkum og ungum tónskáldum sem talin eru eiga erindi á alþjóðavísu. Þingið er keppni en samhliða hittast fulltrúar fjölmargra útvarpsstöðva frá öllum heimshornum og kynna tónverk frá sínu heimalandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert