„Ég minnist þess að það hafi verið rigning þegar ég útskrifaðist, líkt og nú,“ segir Sigfríður Nieljohniusdóttir en hún fagnar 75 ára stúdentsafmæli frá Menntaskólanum í Reykjavík. Hún útskrifaðist árið 1938 og var viðstödd brautskráningu stúdentanna við skólann í gær.
Það má með sanni segja að hátíðarhöldin hafi breyst nokkuð á þessum 75 árum en Sigfríður á auðvelt með að rifja upp hvernig útskriftum var fagnað hér áður fyrr. „Við útskrifuðumst uppi á hátíðarsal í gamla skóla. Kennararnir voru allir viðstaddir, auk Pálma rektors. Þar sungum við skólasöng sem Magnús Kjartansson orti auk annarra stúdentasöngva en Sigfús Einarsson tónskáld stjórnaði söng,“ segir hún.
Ljóst er að söngur einkenndi útskriftirnar í meiri mæli á fyrri helmingi síðustu aldar. Fáir gestir voru viðstaddir útskriftina og ekki voru haldnar stúdentsveislur hjá hverjum nemanda. Þess í stað skemmtu nýstúdentarnir sér allir saman og ekki skorti fjörið.
„Þá hittumst við öll á Gamla-Garði, sem þá var reyndar nýr, settum upp hvítu kollana og gerðum okkur glaðan dag.“ Á þeim tíma þóttu húfurnar tilkomumiklar enda kostuðu þær heilar 15 krónur. „Það voru miklir peningar á þessum tíma, enda ekta kreppa í samfélaginu þá.“
Þar með var þó ekki hátíðarhöldunum lokið. 17. og 18. júní var haldið landsmót stúdenta í Valhöll á Þingvöllum. Þar komu saman stúdentar frá landinu öllu til þess að skemmta sér saman og var þar mikið sungið. Á landsmótinu voru einnig fundarsköp, ræðuhöld og samþykkt ályktun til stjórnvalda. Kvöldið 18. júní var svo haldið lokahóf landsmótsins á Hótel Borg í Reykjavík. Hvítu kollarnir fengu að vera á húfunum allt sumarið en þegar tók að hausta voru kollarnir teknir af og húfurnar notaðar sem höfuðfat allan veturinn, enda um vandaðar húfur að ræða. Í bekknum hennar Sigfríðar voru 20 stúlkur og sex strákar en hún var nemandi við máladeild skólans. Á þeim tíma voru engar stúlkur í stærðfræðideild. „Þá var álitið að stúlkur gætu ekki lært stærðfræði, en það hefur nú sýnt sig annað!“ segir Sigfríður.
„Ég man dimission-daginn okkar, en þá hafði einni stúlkunni verið gefinn manhattan-kokteill í pela. Það fór nú ekki betur en svo að um leið og hún bragðaði á drykknum fékk hún aðsvif. Svo um kvöldið þegar við vorum að skemmta okkur vorum við saman allar tuttugu stúlkurnar með eina litla sérríflösku, svona voru nú fagnaðarlætin þá,“ segir hún en hin mörgu skólaferðalög líða henni seint úr minni.
„Minnisstæðust eru ferðalögin út á land. Þau voru ævintýrum líkust,“ segir hin lífsreynda Sigfríður að lokum.