Flokksstjórn Samfylkingar fundar

Flokkstjórnarfundur Samfylkingarinnar hefst kl. 10 í dag með ræðu Árna …
Flokkstjórnarfundur Samfylkingarinnar hefst kl. 10 í dag með ræðu Árna Páls Árnasonar, formanns flokksins. mbl.is/Rósa Braga

Niðurstöður alþingiskosninganna, skilaboð kjósenda, sumarþingið framundan og sveitarstjórnarkosningarnar 2014 eru meginefni fundar flokksstjórnar Samfylkingarinnar sem hefst kl. 10.00 í dag í Versölum, Hallveigarstíg 1 Reykjavík með setningarræðu Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar.

Að ræðu formanns lokinni fer Dr. Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði og forseti félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, yfir niðurstöður alþingiskosninganna og skoðar fylgi og fylgissveiflur. Því næst verða almennar umræður.

Að loknum umræðum kl. 14.00 stýrir sveitarstjórnarráð Samfylkingarinnar umfjöllun um sveitarstjórnarkosningar 2014 og verður undirbúningur þeirra ræddur í þremur málstofum.

Fundarstjóri er Margrét K. Sverrisdóttir, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Fundarlok eru áætluð um kl. 16.00.

Í tilkynningu frá Samfylkingunni segir að flokksstjórnarfundir séu opnir öllum félögum í Samfylkingunni en aðeins flokksstjórnafulltrúar hafi atkvæðisrétt.

Í flokksstjórn Samfylkingarinnar eiga sæti rúmlega 200 manns; framkvæmdastjórn flokksins, fulltrúar kjörnir á landsfundi, fulltrúar kjörnir af kjördæmaráðum, formenn aðildarfélaga, formenn kjördæma- og fulltrúaráða, stjórn verkalýðsmálaráðs, sveitarstjórnarmenn Samfylkingarinnar og þingmenn flokksins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert