Táragas streymdi inn á skrifstofurnar

Vala Ósk Bergsveinsdóttir vinnur sem enskukennari við einkaháskóla í Istanbúl.
Vala Ósk Bergsveinsdóttir vinnur sem enskukennari við einkaháskóla í Istanbúl.

 „Þetta er mjög sérstakt og skrítið, að vera hér Íslendingur að upplifa eitthvað sem þetta í Tyrklandi,“ segir Vala Ósk Bergsveinsdóttir, sem býr og starfar í Instanbúl. Þar hafa síðustu tvo daga tugþúsundir mótmælt ríkisstjórn landsins á götunum úti. Mótmælin byrjuðu friðsamlega og voru upphaflega vegna þess að ákveðið hafði verið að byggja verslunarmiðstöð í almenningsgarði. Hins vegar ákvað lögreglan að beita táragasi á mótmælendur og þá sauð upp úr. Fleiri hafa nú tekið þátt í mótmælunum sem snúast nú fyrst og fremst um óánægju með ríkisstjórn landsins og aukin tengsl trúar og stjórnmála. Vala er nú stödd á suðurströnd Tyrklands í fríi og því fjarri mestu látunum. 

„Þetta byrjaði allt saman mjög rólega í vikunni. Þetta voru bara saklaus mótmæli gegn byggingu verslunarmiðstöðvarinnar. En svo tók lögreglan upp á því að beita táragasi og setja hörku í þetta og þá breyttist allt. Þetta snýst ekkert lengur um þennan garð heldur er fólk orðið þreytt á því hvernig stjórnvöld haga sér.“

Nefnir hún sem dæmi að nýlega hafi áfengislöggjöfin í landinu verið hert og fleiri moskur byggðar. Mun fleira komi þó til. Fólk sé orðið langþreytt á íhaldssemi stjórnvalda.

Vala segir að mótmælin hafi nú breiðst út til fleiri borga í Tyrklandi. „Þessu virðist ekkert vera að linna. Enn er fullt af fólki úti á götum,“ segir Vala. Hún bendir á að Istanbúl sé bæði evrópsk og asísk borg - sund skilji borgarhlutana að. Vala býr sjálf í Asíuhlutanum og segir ástandið mun rólegra þar. Hún þekkir hins vegar fólk sem býr á því svæði þar sem mótmælin hafa farið fram og átökin við lögregluna verið hvað hörðust.

Á marga vini á svæðinu

„Margir vinir mínir og samstarfsmenn búa á þessu svæði og áttu til dæmis mjög erfitt með að komast heim úr vinnunni í gær. Sumir vinna við götuna þar sem átökin hafa verið mest og upplifðu það að táragas streymdi inn í skrifstofubygginguna þar sem þeir voru að störfum.“

Hún segir það tilviljun að hún sé ekki í borginni þessa dagana. „Ég reyndar bý Asíumegin í borginni og þar hefur allt verið með kyrrum kjörum og mótmælin myndu því ekki trufla mig. Átökin eru bundin við ákveðið svæði.“ 

Vala er enskukennari við einkaháskóla í Istanbúl og hefur verið í landinu í um tvö ár. „Þetta er svolítið öðruvísi,“ segir Vala. „Margt hér er ágætt en menningin hér er vissulega öðruvísi en við eigum að venjast.“

Taksimtorgið troðið af fólki í Istanbúl í dag.
Taksimtorgið troðið af fólki í Istanbúl í dag. AFP
Lögreglan hefur sprautað vatni á mótmælendur.
Lögreglan hefur sprautað vatni á mótmælendur. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert