„Ég held að afkoma heimilanna hafi verið atriði sem var mjög fyrirferðarmikið í kosningabaráttunni. Að sumu leyti höfum við ekki áttað okkur nægilega skýrt á því hve brýnn skuldavandi fólks var og ekki metið það með nægjanlega skýrum hætti hversu hart var í ári hjá stórum hópi. Ég vænti þess að það hafi komið okkur í koll,“ sagði Árni Páll Árnason í samtali við mbl.is að lokinni ræðu hans á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í dag.
Fylgistap til framsóknarmanna
Í ræðu sinni á fundinum fór Árni yfir svið stjórnmálanna og gerði meðal annars fylgistap Samfylkingarinnar að umfjöllunarefni. Kom þar fram að hann teldi að flokkurinn hefði færst of fjarri miðju stjórnmálanna og til vinstri. Það hefði best sést í því að stærstan hluta fylgistapsins megi rekja til þess að fylgi fór til Framsóknarflokksins, ekki Bjartrar framtíðar eins og talið hafði verið.
Hann viðurkennir að skuldaúrræði sem kynnt voru í tíð fráfarandi ríkisstjórnar hafi ekki skilað sér til fólks með fullnægjandi hætti. „Í of miklum mæli hafa hlutirnir komið þannig út að það væri eins og við værum að tala fyrir þeim skuldaúrræðum sem kynnt höfðu verið. En þau komust eingöngu eins langt og þau náðu á þeim tíma. Ég held að margir hafi upplifað okkur í varðstöðu fyrir fjármálastofnanir, sem er langt því frá sanngjörn lýsing á aðgerðum okkar. Við höfum breytt meiru í þá átt að hægt sé að afskrifa kröfur heldur en nokkru sinni áður hefur verið gert í íslenskri sögu,“ segir Árni Páll.
Upplifði okkur sem málsvara viðsemjandans
Aðspurður tekur hann Icesave-málið sem dæmi. Þar hafi Samfylkingin talað fyrir því sem Árni kallar praktískri lausn samningaleiðar. „Við vorum kannski í huga fólks málsvarar viðsemjandans, frekar en að við værum málsvarar fólksins gegn viðsemjandanum, sem við auðvitað vorum,“ segir Árni.
Hann segir að flokkurinn hafi færst of mikið til vinstri á síðasta kjörtímabili og að flokkurinn geti lært af því að lúta ekki um of fyrir samstarfsflokki í ríkisstjórn, heldur standa á sínu. „Ég held að hluta til liggi skýringin í því að við höfum ekki haft nægjanlega skýra áherslu á störfin og efnahagslega velsæld. Afkoma fólks og atvinnumál eru þannig að fólk upplifði ekki að við værum að setja þau í forgang, með réttu eða röngu,“ segir Árni Páll.