Sigrar vinnast með sameinuðum kröftum

Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra og Anna Pála Sverrisdóttir er formaður Samtakanna …
Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra og Anna Pála Sverrisdóttir er formaður Samtakanna '78. mbl.is/Eggert

„Fundurinn var haldinn undir yfirskriftinni samtakamátturinn til að ítreka það að sigrar vinnast ekki nema með sameinuðum kröftum,“ segir Anna Pála Sverrisdóttir, formaður Samtakanna '78 eftir þjóðfund hinsegin fólks sem fram fór í dag. 120 manns tóku virkan þátt allan tímann en margir komu í styttri tíma. Fundurinn stóð í um þrjár klukkustundir. Yngsti þátttakandinn var 15 ára og sá elsti 87 ára. Fundinn sóttu samkynhneigðir, transfólk, tvíkynhneigðir, aðstandendur og aðrir velunnarar.

Samkynhneigður hælisleitandi frá Nígeríu sem hefur verið neitað um hæli hér á landi, var meðal þeirra sem sóttu fundinn. Fundarmenn skrifuðu undir áskorun um hans mál sem færð verður innanríkisráðherra í næstu viku.

Ræða næstu forgangsmál

Anna Pála segir að stjórn samtakanna hafi í tilefni 35 ára afmælis þeirra viljað staldra aðeins við og fá fleira fólk í hugmyndavinnu um hvað Samtökin ´78 eiga að standa fyrir. „Margir sigrar hafa unnist, til dæmis á sviði lagalegs jafnréttis. En nú vildum við vita hver ættu að vera forgangsmálin á næstunni.“ 

Anna Pála segir að hugmyndavinnan á þjóðfundinum hafi heppnast mjög vel og mjög margar og góðar hugmyndir komið fram. 

„Ein hugmyndin er til dæmis sú að gerð verði ítarleg rannsókn á lífsgæðum hinsegin fólks á Íslandi, líðan, geðheilsu, fjárhagslegri stöðu og því hvort að fólk sé að ná sínum markmiðum, hvort heldur sem er í starfi eða námi.“

Hvers vegna er fólk enn inni í skápnum?

Í þessu samhengi var m.a. rætt á fundinum að sorglegt sé að einn séu margir samkynhneigðir Íslendingar enn inni í skápnum og að ná þurfi til þess hóps og kanna ástæður. 

„Svo voru mjög sterkar raddir um að huga þurfi sérstaklega að málefnum hinsegin eldri borgara. Þeirra lífi, sérstaklega inni á öldrunarheimilum. Maður hættir vissulega ekki að vera hinsegin þó maður fari á elliheimili,“ segir Anna Pála. 

Þá komu fram hugmyndir um að gæta þess að félagsstarf samtakanna sé fjölbreytt, að efla alþjóðasamstarf þeirra m.a. við Grænland, Færeyjar og Úganda.

Anna Pála segir að einnig hafi komið fram hugmynd um að samtökin beiti sér skipulega í málefnum hinsegin hælisleitenda. Meðal þeirra sem tók þátt á fundinum í dag var Martin, samkynhneigður flóttamaður frá Nígeríu.

Anna Pála segir að þátttakendur fundarins hafi samþykkt og skrifað undir áskorun til innanríkisráðherra. „Við höfum verið að vinna með hans mál fram að þessu og mikill áhugi á að halda því áfram. Við förum fram á það við innanríkisráðherra að hans mál verði endurskoðað því við teljum að það hafi ekki fengið fullnægjandi afgreiðslu á sínum tíma - ekki hafi verið tekið tillit til þess að hann er í hættu í heimalandi sínu vegna kynhneigðar sinnar.“

Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra, var á fundinum og fylgdist með hópavinnunni. Anna Pála segir hana lengi hafa sýnt málefnum hinsegin fólks mikinn áhuga. Þá sat Dagur B. Eggertsson fundinn fyrir hönd Reykjavíkurborgar en Anna Pála bendir á að Reykjavíkurborg hafi staðið sig frábærlega í mannréttindamálum.

„Ég er ofsalega ánægð með daginn og vinnuna alla. Þetta gekk allt svo vel og þarna sýndu allir þátttakendur svo sannarlega samtakamátt í verki.“

Páll Óskar Hjálmtýsson tók þátt í þjóðfundinum. Hann fjallaði m.a. …
Páll Óskar Hjálmtýsson tók þátt í þjóðfundinum. Hann fjallaði m.a. um málefnið lýðheilsumál. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert