„Lögreglan setur mál þar sem skotvopn koma við sögu í algjöran forgang,“ segir Árni Þór Sigmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn. „Rannsókn málsins miðar vel. Vopnin sem var stolið voru endurheimt eftir húsleit í Hafnarfirði sjö tímum eftir að tilkynning barst, en það verður að teljast mjög gott.“ Í gær var tilkynnt um að brotist hefði verið inn til manns á sjötugsaldri og stolið þaðan átta skotvopnum.
Árni Þór segir að menn hafi verið handteknir í tengslum við rannsókn málsins, en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu naut aðstoðar sérsveitar Ríkislögreglustjóra í málinu. „Það eru tengsl þarna við vélhjólasamtök, allavega hjá einhverjum af þessum mönnum, en engin þekkt tengsl við árásina í Ystalesi, en það verður rannsakað og kemur þá í ljós hvort svo sé,“ segir Árni Þór.
Hann segir lögregluna ekki finna fyrir því með áþreifanlegum hætti að menn með tengsl við undirheima séu í auknum mæli að leitast við að verða sér úti um skotvopn, en að það sé alltaf tilhneiging hjá vissum hópi manna að komast yfir og hafa slík vopn undir höndum.
Húsráðandi, sem bundinn var á höndum og fótum, gaf skýrslu í gær. Hann var fluttur á slysadeild, en Árni Þór sagði hann ekki hafa verið með sýnilega áverka, en skiljanlega mjög brugðið. Árásarmennirnir ógnuðu honum með hnífi.