Gekk berfætt í snjónum á fjallinu

„Mér líður vel, núna er það versta að baki,“ segir Maylis Lasserre, sem fannst heil á húfi í gærkvöldi eftir rúmlega sólarhrings leit í Mjóafirði við Ísafjarðardjúp. Hún segist ekki hafa talað við Guð heldur Ísland í þá 32 tíma sem hún var í sjálfheldu á fjallinu fyrir ofan ferðaþjónustubæinn Heydal.

Maylis segir að ekkert ami að sér fyrir utan það að fætur hennar eru bólgnir eftir kuldann. „Skórnir mínir fylltust af snjó á göngunni svo ég varð að fara úr þeim og sokkunum og ganga   berfætt,“ segir Maylis. Fæturnir eiga því eftir að jafna sig áður en hún verður útskrifuð. „En þetta er allt saman á réttri leið.“

Maylis vonar að hún verði útskrifuð af sjúkrahúsinu á morgun ef allt gengur að óskum.

Ætlaði í stutta gönguferð

Maylis lagði af stað í það sem átti að vera stutt gönguferð á föstudagsmorguninn um kl. 10. Hún segist vanur göngumaður en í þetta sinn hafi hún ekki tekið með sér síma eða staðsetningartæki. Hún segist fljótlega hafa áttað sig á því að hún var lent í sjálfheldu og gat ekki snúið til baka sömu leið og hún gekk upp fjallið. Snjór og krapi gerði henni mjög erfitt fyrir. „Ég varð að ganga í snjónum og þá fylltust skórnir af snjó og ég varð að fara úr þeim, ég missti þá stöðugt af fótunum,“ lýsir Maylis en hún var aðeins klædd gallabuxum, bol, jakka og með stóran trefil. Hún segist ekki hafa getað gengið lengi berfætt og því ákveðið að halda kyrru fyrir lengi vel. „Ég hafði enga tilfinningu í fótunum. Þeir voru mjög, mjög bólgnir.“

Óörugg að ganga í snjónum

Maylis segist einnig hafa ákveðið að stoppa af því að hún varð mjög óörugg að ganga í snjónum og á ísnum og þá greip hana hræðsla. „Ég vissi líka að það var ekki gott fyrir mig að ganga á bólgnum fótunum. Svo ég stoppaði og tók stóra trefilinn minn og vafði honum um fæturna og setti jakkann yfir höfuðið og beið.“

Eftir nokkuð langa bið ákvað Maylis að færa sig um set. „Ég gekk svo um hálfan kílómetra en  þá voru fæturnir á mér aftur orðnir mjög dofnir.“

Hún segist hafa séð til sjávar úr fjallinu. „Mér fannst ég ekki beint villt, mér fannst ég aldrei vera langt frá bænum.“

Maylis segist hafa reynt að halda ró sinni og vonað að með því ætti hún góða möguleika á að komast heilu og höldnu aftur til byggða. Hún segir skyggnið oft hafa verð slæmt og því hafi hún m.a. ákveðið að ganga ekki lengra. „Samanlagt beið ég í um 32 tíma,“ segir hún.

Það var því mikill léttir að sjá þyrlu Landhelgisgæslunnar sveima yfir. Hún segist hafa séð þyrluna er hún var nokkuð frá þeim stað þar sem hún beið. „Þeir sáu mig ekki strax en ég stóð upp og settist niður til skiptis og veifaði til að ná athygli þeirra. Og svo sáu þeir mig.“ Hún segist full þakklæti.

Full þakklætis

„Mér var orðið svo kalt og fæturnir orðnir svo aumir að það fyrsta sem ég fann var þakklæti,“ segir Maylis. Hún segist hafa hringt í foreldra sína í Frakklandi um leið og færi gafst. „Þeir höfðu verið mjög áhyggjufullir og beðið við símann.“

Maylis vill koma á framfæri innilegum þökkum til allra þeirra sem komu að leitinni. „Mér skilst að björgunarsveitirnar ykkar komi að öllum svona leitum en mér finnst samt eins og ég hljóti að hafa fengið VIP-meðferð.“

Hún ætlar ekki að gefast upp á Íslandi þrátt fyrir þessar raunir. „Já, já, ég ætla að fara að vinna aftur í Heydal um leið og fæturnir hafa jafnað sig,“ segir Maylis sem er frá suðvesturhluta Frakklands. Hún ætlar sér að vera hér til 1. október. „Á meðan ég var á fjallinu talaði ég ekki við Guð, ég talaði við Ísland.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka