Nýskipuð ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks er 14. stjórn þessara tveggja flokka og sú tíunda frá lýðveldisstofnun. Flokkarnir voru fyrst í stjórnarsamstarfi árið 1932 og á ýmsu hefur gengið í samstarfinu. Morgunblaðið hefur í gegnum tíðina lagt áherslu á vandaða umfjöllun um stjórnmál og með því að fletta gömlum eintökum blaðsins má lesa stjórnmálasögu undanfarinna áratuga.
Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur segir að samstarf Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hafi oft á tíðum einkennst af vantrausti. „Lengstum voru þetta stóru turnarnir tveir í íslenskum stjórnmálum og oftast var það þannig, einkum framan af, að samstarf þessara tveggja flokka í ríkisstjórn var einhvers konar neyðarlausn. Tortryggni gætti og það var engin blússandi hamingja þegar þessir tveir gengu til samstarfs. Annað einkenni er að í báðum flokkum voru aðsópsmiklir og áhrifamiklir leiðtogar og stundum var það þannig í kúrekamyndunum að bærinn var ekki nógu stór fyrir þá báða.“
Fyrsta ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks var mynduð árið 1932. „Þá voru þar fyrir á fleti öflugir leiðtogar, þeir Jónas Jónsson frá Hriflu sem var mikill andstæðingur íhaldsins og ekki síður Tryggvi Þórhallsson, formaður Framsóknar, sem sagði hin fleygu orð: Allt er betra en íhaldið,“ segir Guðni. „En þeir voru ekki í fararbroddi þá, það var Ásgeir Ásgeirsson, síðar forseti sem þá var þingmaður Framsóknar sem tókst með lagni sinni að fá þessa tvo flokka til þess að vinna saman. En tortryggni, beinlínis illska einkenndi það samstarf að nokkru leyti. Þó að það hafi verið ágætt í stjórninni sjálfri þá var hinn almenni flokksmaður ekkert hrifinn.“
Guðni segir að árið 1939, þegar stríð vofði yfir í Evrópu, hafi flokkarnir tveir orðið ásáttir um að taka höndum saman og þá var Þjóðstjórnin svonefnda mynduð, en aðild að henni átti einnig Alþýðuflokkurinn. „Þessi stjórn entist til ársins 1942, en þá var það eiðrofsmálið svokallaða sem olli því að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn gátu ekki unnið saman. Hermann Jónasson taldi sig hafa fengið loforð Ólafs Thors fyrir því að sjálfstæðismenn myndu ekki samþykkja breytingu á kjördæmaskipan landsins. Þessir tveir gátu ekki hugsað sér að sitja undir forsæti hins, engu að síður settust þeir tregir saman í stjórn árið 1947 undir forsæti leiðtoga Alþýðuflokksins. 1950-1956 voru þeir saman í stjórn á nýjan leik, en aftur einkenndist það samstarf af tortryggni frekar en eintómri ást og hamingju.“
„En svo kemur stóra milliskeiðið frá 1956-1974 þar sem þessir flokkar sitja ekki saman í stjórn og eru höfuðandstæðingarnir,“ segir Guðni. „Á þessum árum, áratugunum eftir stríð, eflist veldi þeirra í samfélaginu. Oft er talað um helmingaskipti sem er fullmikil einföldun, en lýsir þó þeim sannleika að þessir tveir flokkar komust til mikilla valda eða viðhéldu völdum sínum í íslensku samfélagi. Framsóknarmenn höfðu kaupfélögin og Sambandið, Sjálfstæðismenn höfðu Reykjavík, útgerðarmenn og kaupmenn á sínu bandi. Báðir biðluðu síðan til almennings: stétt með stétt sögðu sjálfstæðismenn, framsóknarmenn töldu sig málsvara menningar, íslensks þjóðlífs og alls þess sem væri gott og gilt í samfélaginu.“
Árið 1974 að gengu flokkarnir til samstarfs enn á ný, en þá urðu átök um forsætisráðherrastólinn; hvort Ólafur Jóhannesson, formaður Framsóknarflokksins, eða Geir Hallgrímsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, myndi setjast í hann. Úr varð að Geir varð forsætisráðherra. Guðni segir að þarna hafi sama sagan endurtekið sig, flokkana greindi á um leiðir og markmið. „Framan af var samstarfið þokkalegt, en svo syrtir í álinn, stjórninni tekst ekki að glíma við verðbólguna sem æðir áfram og báðir flokkar gjalda afhroð í kosningunum 1978. Lærdómurinn virðist þá vera að það sé bara ekkert vit í að vera í svona samstarfi.“
En það breyttist þó fljótlega, því árið 1980 myndaði Framsókn stjórn með Alþýðubandalaginu og klofningi úr Sjálfstæðisflokknum. Sú stjórn sat til ársins 1983, en þá tók aftur við stjórnarkreppa. „Allt er betra en íhaldið hafði Steingrímur Hermannsson [þáverandi formaður Framsóknarflokksins] sagt 1979, en honum snerist hugur og sá að skynsamlegast væri að leita samstarfs við sjálfstæðismenn. Úr verður að þeir setjast saman í stjórn undir forsæti Steingríms,“ segir Guðni.
Eftir þetta varð nokkurt hlé á stjórnarsamstarfi flokkanna, til ársins 1995. „Þá er Davíð Oddsson búinn að sitja í forsætisráðuneytinu í fjögur ár og Halldór Ásgrímsson orðinn formaður Framsóknarflokksins. Staðan var þannig að Halldóri og Davíð finnst skynsamlegast að taka höndum saman á nýjan leik. Til að gera langa sögu stutta, þá sitja sjálfstæðis- og framsóknarmenn saman í stjórn næstu þrjú kjörtímabil, til ársins 2007.“
Guðni segir samstarf flokkanna hafa verið með ágætum, en kosningarnar 2003 hafi reynst Sjálfstæðisflokknum erfiðar, hann tapaði þá miklu fylgi og sú ákvörðun stjórnarinnar að styðja við innrás Bandaríkjanna í Írak hafi valdið miklu írafári og skapað spennu í samstarfinu. „Framsóknarflokkurinn splundraðist eiginlega innan frá, sveitarstjórnarkosningarnar 2006 voru flokknum erfiðar og það urðu formannsskipti.“
Hann segir að Framsókn hafi vart verið svipur hjá sjón í kosningunum árið 2007 og skynsamlegt hafi verið af hálfu Sjálfstæðisflokksins að binda enda á samstarfið í bili. „Margir töldu Framsóknarflokkinn vera á útleið í íslenskri pólitík, búinn að missa sitt kjörland á landsbyggðinni, SÍS og kaupfélögin. Samfylkingarmenn, fullir sjálfstraust og ánægju, töldu sig hafa tekið yfir miðjuna í íslenskum stjórnmálum. Svo verður hrunið, Icesave, óvinsæl vinstristjórn og sjá; Framsóknarflokkurinn rís upp eins og fuglinn Fönix eftir kosningarnar í vor. Það hefði þurft meiriháttar speking til að spá þessu fyrir nokkrum árum,“ segir Guðni.
Hann segir nokkur atriði hafa einkennt samstarf flokkanna tveggja í gegnum tíðina. „Þeir hafa haldið því á lofti að þeir séu málsvarar festu og stöðugleika, styrkrar stjórnar og engra öfga. Þá hefur verið talað um styrka hagstjórn, að þessir flokkar viti hvernig á að stjórna landinu. En það má segja að hinir sterku eða klóku leiðtogar hafi líka sett svip sinn á þetta samstarf.“
Guðni segir áhugavert í ljósi sögunnar að stjórnarsáttmálinn nýi hafi verið undirritaður í Héraðsskólanum að Laugarvatni. „Héraðsskólarnir voru stolt Jónasar frá Hriflu og tákn um hans stefnu; að efla hinar dreifðu byggðir og efla menntun til sveita. En þeir sjálfstæðismenn voru til sem höfðu svo mikinn ímugust á Jónasi og því sem hann stóð fyrir að þeir lögðu frekar langa lykkju á leið sína en að halda til Laugarvatns.“
Guðni segir nokkur líkindi vera með núverandi leiðtogum Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks og þeirra sem á undan þeim gengu. „Sigmundur Davíð með sína ríku áherslu á þjóðmenningu og þjóðleg gildi sver sig nokkuð í ætt við fyrri leiðtoga flokksins, það er dálítill Jónas frá Hriflu í honum.“
„Bjarni Benediktsson er auðvitað af merkum ættum í Sjálfstæðisflokknum, af Engeyjarættinni, alnafni og náfrændi Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins. Bjarni hefur sýnt í verki og stefnu að hann vill fara leið málamiðlana frekar en hörkunnar sex þegar honum þykir það skynsamlegast og hefur uppskorið andúð ýmissa afla í sínum flokki fyrir það,“ segir Guðni.
„Þetta er erfiður línudans og hann hefur mætt meiri mótstöðu í sínum flokki en margir forveranna, þó að það hafi alltaf verið undiralda í Sjálfstæðisflokknum. Geir Hallgrímsson, sem mætti nú oft mótbyr hafði á orði að þetta væri einn erfiðasti starfi sem hægt væri að hugsa sér; að vera formaður Sjálfstæðisflokksins. Ég hugsa að Bjarni geti tekið undir það. En nú er ný stjórn að taka við völdum og þá er andinn oftast þannig að menn fyllast kappi og samstöðu og vilja vinna saman. En það er nú þannig í þessum leik; það er enginn annars bróðir í leik og fari illa að ganga, þá held ég nú að hnífarnir fari fljótt á loft.“