Stormasamt samstarf stjórnarflokkanna í gegnum tíðina

00:00
00:00

Ný­skipuð rík­is­stjórn Fram­sókn­ar- og Sjálf­stæðis­flokks er 14. stjórn þess­ara tveggja flokka og sú tí­unda frá lýðveld­is­stofn­un. Flokk­arn­ir voru fyrst í stjórn­ar­sam­starfi árið 1932 og á ýmsu hef­ur gengið í sam­starf­inu. Morg­un­blaðið hef­ur í gegn­um tíðina lagt áherslu á vandaða um­fjöll­un um stjórn­mál og með því að fletta göml­um ein­tök­um blaðsins má lesa stjórn­mála­sögu und­an­far­inna ára­tuga.

Guðni Th. Jó­hann­es­son sagn­fræðing­ur seg­ir að sam­starf  Fram­sókn­ar- og Sjálf­stæðis­flokks hafi oft á tíðum ein­kennst af van­trausti. „Lengstum voru þetta stóru turn­arn­ir tveir í ís­lensk­um stjórn­mál­um og oft­ast var það þannig, einkum fram­an af, að sam­starf þess­ara tveggja flokka í rík­is­stjórn var ein­hvers kon­ar neyðarlausn. Tor­tryggni gætti og það var eng­in blúss­andi ham­ingja þegar þess­ir tveir gengu til sam­starfs. Annað ein­kenni er að í  báðum flokk­um voru aðsóps­mikl­ir og áhrifa­mikl­ir leiðtog­ar og stund­um var það þannig í kú­reka­mynd­un­um að bær­inn var ekki nógu stór fyr­ir þá báða.“

„Allt er betra en  íhaldið“

Fyrsta rík­is­stjórn Sjálf­stæðis- og Fram­sókn­ar­flokks var mynduð árið 1932. „Þá voru þar fyr­ir á fleti öfl­ug­ir leiðtog­ar, þeir Jón­as Jóns­son frá Hriflu sem var mik­ill and­stæðing­ur íhalds­ins og ekki síður Tryggvi Þór­halls­son, formaður Fram­sókn­ar, sem sagði hin fleygu orð: Allt er betra en íhaldið,“ seg­ir Guðni. „En þeir voru ekki í far­ar­broddi þá, það var Ásgeir Ásgeirs­son, síðar for­seti sem þá var þingmaður Fram­sókn­ar sem tókst með lagni sinni að fá þessa tvo flokka til þess að vinna sam­an. En tor­tryggni, bein­lín­is illska ein­kenndi það sam­starf að nokkru leyti. Þó að það hafi verið ágætt í stjórn­inni sjálfri þá var hinn al­menni flokksmaður ekk­ert hrif­inn.“

Eiðrofs­málið setti strik í reikn­ing­inn

Guðni seg­ir að árið 1939, þegar stríð vofði yfir í Evr­ópu, hafi flokk­arn­ir tveir orðið ásátt­ir um að taka hönd­um sam­an og þá var Þjóðstjórn­in svo­nefnda mynduð, en aðild að henni átti einnig Alþýðuflokk­ur­inn. „Þessi stjórn ent­ist til árs­ins 1942, en þá var það eiðrofs­málið svo­kallaða sem olli því að sjálf­stæðis­menn og fram­sókn­ar­menn gátu ekki unnið sam­an. Her­mann Jónas­son taldi sig hafa fengið lof­orð Ólafs Thors fyr­ir því að sjálf­stæðis­menn myndu ekki samþykkja breyt­ingu á kjör­dæma­skip­an lands­ins. Þess­ir tveir gátu ekki hugsað sér að sitja und­ir for­sæti hins, engu að síður sett­ust þeir treg­ir sam­an í stjórn árið 1947 und­ir for­sæti leiðtoga Alþýðuflokks­ins. 1950-1956 voru þeir sam­an í stjórn á nýj­an leik, en aft­ur ein­kennd­ist það sam­starf af tor­tryggni frek­ar en ein­tómri ást og ham­ingju.“

Voru ekki í stjórn­ar­sam­starfi í 18 ár

„En svo kem­ur stóra milliskeiðið frá 1956-1974 þar sem þess­ir flokk­ar sitja ekki sam­an í stjórn og eru höfuðand­stæðing­arn­ir,“ seg­ir Guðni. „Á þess­um árum, ára­tug­un­um eft­ir stríð, efl­ist veldi þeirra í sam­fé­lag­inu. Oft er talað um helm­inga­skipti sem er full­mik­il ein­föld­un, en lýs­ir þó þeim sann­leika að þess­ir tveir flokk­ar komust til mik­illa valda eða viðhéldu völd­um sín­um í ís­lensku sam­fé­lagi. Fram­sókn­ar­menn höfðu kaup­fé­lög­in og Sam­bandið, Sjálf­stæðis­menn höfðu Reykja­vík, út­gerðar­menn og kaup­menn á sínu bandi. Báðir biðluðu síðan til al­menn­ings: stétt með stétt sögðu sjálf­stæðis­menn, fram­sókn­ar­menn töldu sig mál­svara menn­ing­ar, ís­lensks þjóðlífs og alls þess sem væri gott og gilt í sam­fé­lag­inu.“

Tek­ist á um stól­inn

Árið 1974 að gengu flokk­arn­ir til sam­starfs enn á ný, en þá urðu átök um for­sæt­is­ráðherra­stól­inn; hvort Ólaf­ur Jó­hann­es­son, formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins, eða Geir Hall­gríms­son, formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, myndi setj­ast í hann. Úr varð að Geir varð for­sæt­is­ráðherra. Guðni seg­ir að þarna hafi sama sag­an end­ur­tekið sig, flokk­ana greindi á um leiðir og mark­mið. „Fram­an af var sam­starfið þokka­legt, en svo syrt­ir í ál­inn, stjórn­inni tekst ekki að glíma við verðbólg­una sem æðir áfram og báðir flokk­ar gjalda af­hroð í kosn­ing­un­um 1978. Lær­dóm­ur­inn virðist þá vera að það sé bara ekk­ert vit í að vera í svona sam­starfi.“

Stjórn und­ir for­sæti Stein­gríms

En það breytt­ist þó fljót­lega, því árið 1980 myndaði Fram­sókn stjórn með Alþýðubanda­lag­inu og klofn­ingi úr Sjálf­stæðis­flokkn­um. Sú stjórn sat til árs­ins 1983, en þá tók aft­ur við stjórn­ar­kreppa. „Allt er betra en íhaldið hafði Stein­grím­ur Her­manns­son [þáver­andi formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins] sagt 1979, en hon­um sner­ist hug­ur og sá að skyn­sam­leg­ast væri að leita sam­starfs við sjálf­stæðis­menn. Úr verður að þeir setj­ast sam­an í stjórn und­ir for­sæti Stein­gríms,“  seg­ir Guðni.

Mynduðu stjórn í þrígang

Eft­ir þetta varð nokk­urt hlé á stjórn­ar­sam­starfi flokk­anna, til árs­ins 1995. „Þá er Davíð Odds­son bú­inn að sitja í for­sæt­is­ráðuneyt­inu í fjög­ur ár og Hall­dór Ásgríms­son orðinn formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins. Staðan var þannig að Hall­dóri og Davíð finnst skyn­sam­leg­ast að taka hönd­um sam­an á nýj­an leik. Til að gera langa sögu stutta, þá sitja sjálf­stæðis- og fram­sókn­ar­menn sam­an í stjórn næstu þrjú kjör­tíma­bil, til árs­ins 2007.“

Guðni seg­ir sam­starf flokk­anna hafa verið með ágæt­um, en kosn­ing­arn­ar 2003 hafi reynst Sjálf­stæðis­flokkn­um erfiðar, hann tapaði þá miklu fylgi og sú ákvörðun stjórn­ar­inn­ar að styðja við inn­rás Banda­ríkj­anna í Írak hafi valdið miklu íra­fári og skapað spennu í sam­starf­inu. „Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn splundraðist eig­in­lega inn­an frá, sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­arn­ar 2006 voru flokkn­um erfiðar og það urðu for­manns­skipti.“

Héldu Fram­sókn vera á út­leið

Hann seg­ir að Fram­sókn hafi vart verið svip­ur hjá sjón í kosn­ing­un­um árið 2007 og skyn­sam­legt hafi verið af hálfu Sjálf­stæðis­flokks­ins að binda enda á sam­starfið í bili.  „Marg­ir töldu Fram­sókn­ar­flokk­inn vera á út­leið í ís­lenskri póli­tík, bú­inn að missa sitt kjörland á lands­byggðinni, SÍS og kaup­fé­lög­in. Sam­fylk­ing­ar­menn, full­ir sjálfs­traust og ánægju, töldu sig hafa tekið yfir miðjuna í ís­lensk­um stjórn­mál­um. Svo verður hrunið, Ices­a­ve, óvin­sæl vinstri­stjórn og sjá; Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn rís upp eins og fugl­inn Fön­ix eft­ir kosn­ing­arn­ar í vor. Það hefði þurft meiri­hátt­ar spek­ing til að spá þessu fyr­ir nokkr­um árum,“ seg­ir Guðni.

Festa, stöðug­leiki og klók­ir leiðtog­ar

Hann seg­ir nokk­ur atriði hafa ein­kennt sam­starf flokk­anna tveggja í gegn­um tíðina. „Þeir hafa haldið því á lofti að þeir séu mál­svar­ar festu og stöðug­leika, styrkr­ar stjórn­ar og engra öfga. Þá hef­ur verið talað um styrka hag­stjórn, að þess­ir flokk­ar viti hvernig á að stjórna land­inu. En það má segja að hinir sterku eða klóku leiðtog­ar hafi líka sett svip sinn á þetta sam­starf.“

Áhuga­verð staðsetn­ing

Guðni seg­ir áhuga­vert í ljósi sög­unn­ar að stjórn­arsátt­mál­inn nýi hafi verið und­ir­ritaður í Héraðsskól­an­um að Laug­ar­vatni. „Héraðsskól­arn­ir voru stolt Jónas­ar frá Hriflu og tákn um hans stefnu; að efla hinar dreifðu byggðir og efla mennt­un til sveita. En þeir sjálf­stæðis­menn voru til sem höfðu svo mik­inn ímugust á Jónasi og því sem hann stóð fyr­ir að þeir lögðu frek­ar langa lykkju á leið sína en að halda til Laug­ar­vatns.“

Dá­lít­ill Jón­as í Sig­mundi

Guðni seg­ir nokk­ur lík­indi vera með nú­ver­andi leiðtog­um Fram­sókn­ar- og Sjálf­stæðis­flokks og þeirra sem á und­an þeim gengu. „Sig­mund­ur Davíð með sína ríku áherslu á þjóðmenn­ingu og þjóðleg gildi sver sig nokkuð í ætt við fyrri leiðtoga flokks­ins, það er dá­lít­ill Jón­as frá Hriflu í hon­um.“

„Bjarni Bene­dikts­son er auðvitað af merk­um ætt­um í Sjálf­stæðis­flokkn­um, af Eng­eyjarætt­inni, al­nafni og náfrændi Bjarna Bene­dikts­son­ar for­sæt­is­ráðherra og for­manns Sjálf­stæðis­flokks­ins. Bjarni hef­ur sýnt í verki og stefnu að hann vill fara leið mála­miðlana frek­ar en hörk­unn­ar sex þegar hon­um þykir það skyn­sam­leg­ast og hef­ur upp­skorið andúð ým­issa afla í sín­um flokki fyr­ir það,“ seg­ir Guðni.

Eng­inn er ann­ars bróðir í leik

„Þetta er erfiður línu­dans og hann hef­ur mætt meiri mót­stöðu í sín­um flokki en marg­ir for­ver­anna, þó að það hafi alltaf verið undir­alda í Sjálf­stæðis­flokkn­um. Geir Hall­gríms­son, sem mætti nú oft mót­byr hafði á orði að þetta væri einn erfiðasti starfi sem hægt væri að hugsa sér; að vera formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins. Ég hugsa að Bjarni geti tekið und­ir það. En nú er ný stjórn að taka við völd­um og þá er and­inn oft­ast þannig að menn fyll­ast kappi og sam­stöðu og vilja vinna sam­an. En það er nú þannig í þess­um leik; það er eng­inn ann­ars bróðir í leik og fari illa að ganga, þá held ég nú að hnífarn­ir fari fljótt á loft.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert