Ber ekki ábyrgð á slysi á skólalóð

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur komist að þeirri niðurstöðu að skaðabótaábyrgð vegna slyss sem nemandi varð fyrir utan lóðar Austurbæjarskóla á skólatíma verði ekki lögð á skólann. Vátryggingafélag Íslands, sem Reykjavíkurborghafði ábyrgðartryggingu hjá vegna skólans, var því sýknað af kröfu um viðurkenningu bótaskyldu vegna slyssins.

Dómkröfur stefnanda voru að viðurkennt yrði með dómi að tryggingafélagið væri bótaskylt vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir þann 7. desember 2009, þegar hann féll niður af steinvegg í frímínútum fyrir utan leiksvæði Árbæjarskóla í Reykjavík.

Pilturinn var tæplega átta og hálfs árs gamall þegar slysið varð. Hann fór í frímínútum í hádegi út af lóð skólans og að Árbæjarkirkju. Lóðir skólans og kirkjunnar liggja saman en ekki er girt á milli lóðanna. Samkvæmt gögnum málsins fór pilturinn upp á eða hoppaði yfir steinvegg sem markar inngang kirkjunnar. Hann féll niður um það bil tvo metra og lenti á vinstri síðu og rak vinstri hlið höfuðs í gangstétt.

Pilturinn viðbeinsbrotnaði við fallið og hlaut beinleiðniheyrnartap á vinstra eyra sem í matsgerð 13. október 2011 var metið til átta prósenta varanlegrar læknisfræðilegrar örorku.

Annars vegar var deilt um það hvort það skuli telja vanbúnað á lóð skólans að hún hefði  ekki verið afgirt til þess að hindra að nemendur kæmust yfir á lóð kirkjunnar og hvort slysið mætti þá rekja til þess vanbúnaðar. Hins vegar snerist ágreiningur aðila um það hvort starfsmenn skólans hefðu með saknæmum hætti vanrækt skyldur sínar til eftirlits með stefnanda á skólatíma og að slysið hafi þá orðið vegna þeirrar vanrækslu.

Þá er hins vegar niðurstaða dómsins að stefnanda hafi ekki tekist að sanna að slysið hafi orðið vegna vanbúnaðar húsnæðis, lóðar, aðstöðu eða búnaðar Árbæjarskóla. Þá hafi honum ekki heldur tekist að sanna að öryggisreglum hafi ekki verið fylgt eða að slysið verði rakið til saknæmrar háttsemi starfsmanna skólans eða annarra atvika sem skólinn beri ábyrgð á. Af því sem upplýst sé um slysið verði að telja að það verði rakið til aðgæsluleysis piltsins og óhappatilviks sem stefnandi verði sjálfur að bera skaðann af. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert