Nyrsti hluti Kjalvegar var ekki lokaður um helgina, þegar fimm kínverskir ferðamenn lentu í umferðaróhappi þar. Talsverða vatnavexti gerði þar skömmu fyrir helgi með þeim afleiðingum að vegurinn fór í sundur við Sandá og ferðamennirnir keyrðu ofan í gjá sem þar myndaðist. Veginum hefur nú verið lokað en þrjár konur í bílnum urðu fyrir minniháttar eymslum.
Flestir fjallvegir eru lokaðir en að sögn Þorvaldar Böðvarssonar, rekstrarstjóra hjá Vegagerðinni, er þessi kafli Kjalvegar, frá byggð og fram að Seyðisá, uppbyggður og yfirleitt ekki lokaður nema út af snjó. „Málið er þannig að vegurinn var merktur lokaður á vef Vegagerðarinnar og eru uppsett lokunarmerki við Sandá en þar fyrir norðan var hann ekki lokaður einfaldlega vegna þess að það var áhugi fyrir því að hafa hann opinn ef það væri í lagi að fara hann. Svo hefur aftur á móti gert vatnavexti um eða fyrir helgina og hann grafist í sundur þarna á einum stað,“ segir Þorvaldur og bætir við að Vegagerðin hefði lokað veginum umsvifalaust hefði hún vitað af gjánni en ekkert eftirlit sé á veginum. „Þar af leiðandi veit maður náttúrulega ekkert nema maður frétti af þessu frá viðkomandi umferð,“ segir Þorvaldur að lokum.
Frétt mbl.is: Ferðamenn lentu ofan í gjá á Kili