„Innleiðing á breyttri sorphirðu hefur gengið mjög vel og íbúar hafa tekið vel við sér og flokkað pappírinn frá rusli og skilað til endurvinnslu,“ segir Eygerður Margrétardóttir, deildarstjóri umhverfis- og úrgangsstjórnunar Reykjavíkurborgar. Nú er íbúum í Reykjavíkurborg skylt að flokka pappír frá rusli og skila til endurvinnslu. Öllum borgarbúum stendur til boða að fá bláar tunnur sem eingöngu má setja í pappír. Vesturbærinn var síðasti hluti borgarinnar í innleiðingaferlinu sem fékk bláar tunnur í lok maí, þá áttu vesturbæingar að hætta að henda pappír í ruslið. Íbúar þurfa sjálfir að panta sér bláar tunnur.
Höfum ekki boðið upp á plastflokkun heim við hús en íbúar geta skilað plasti
„Fólk hefur verið feimið við að skila inn grárri tunnu á móti blárri en um leið og pappírinn fer ekki lengur í blandaða úrganginum þarf minna rými fyrir hann,“ segir Eygerður.
Blá tunnan er losuð á 20 daga fresti en grá á 10 daga fresti.
Magn pappírs sem skilað er í bláu tunnurnar hefur tvöfaldast ef bornir eru saman aprílmánuður 2012 og 2013. Það var 80 tonn í apríl 2012 en var rúmlega 160 tonn í apríl 2013. Allur þessi pappír verður endurunninn í aðrar vörur í stað þess að verða urðaður.
„Það kom okkur skemmtilega á óvart að það efni sem fer í Sorpu er mun hreinna en vonir okkar stóðu til. Við erum ánægð með hvað fólk flokkar vel og það virðist átta sig vel á hvað má fara í bláu tunnuna. Enn sem komið er er þetta mikið til blöð og tímarit en slétti pappinn er farinn að sjást meira, eins og eggjabakkar og pappi utan um morgunkorn,“ segir Eygerður aðspurð hvort fólk flokki rétt í bláu tunnurnar. Hún bendir þó á að fólk verði að muna að taka blöðin úr plastpokunum þegar þau eru sett í bláu tunnurnar og grenndargámana.
Bylgjupappi, fernur, skrifstofupappír, sléttur pappi, dagblöð og tímarit er það efni sem má fara í bláu tunnurnar, sjá einnig síðuna: pappirerekkirusl.is
Grenndarstöðvar eru 53 talsins í borginni en eru alls 80 talsins á öllu höfuðborgarsvæðinu. Einnig hægt að skila pappír á endurvinnslustöðvar Sorpu.
„Við höfum ekki boðið upp á plastflokkun heim við hús en íbúar geta skilað plasti á endurvinnslustöðvum og grenndarstöðvum. Á síðasta umhverfis- og skipulagsráðsfundi borgarinnar var samþykkt að hafin yrði aðgerðaráætlun í úrgangsmálum til ársins 2017. Ég geri ráð fyrir að á áætluninni verði aðgerð er varðar frekari flokkun og stuðningur við flokkun heim við hús og þann möguleika að bæta ennfremur þjónustu á grenndarstöðvum,“ segir Eygerður aðspurð hvort boðið verði upp á fleiri möguleika í flokkun sorps heim við hús á næstunni.
Eygerður finnur fyrir mikilli vakningu fólks í flokkun sorps. Fjöldi fyrirspurna hefur borist frá fólki um hvort tekið verði einnig við plasti. Eygerður segir að eins og staðan sé núna þá bendi borgin á grenndarstöðvarnar. „Það er aldrei að vita hver næstu skref verða í þjónustunni; við erum að skoða möguleikana og tækifærin sem þar liggja,“ segir Eygerður.
„Þetta er ekki einfaldur málaflokkur. Það þarf að skoða allt ferlið mjög vel, frá tunnunni heim við hús til endurvinnslu“ segir Eygerður sem reiknar með að vinnunni við aðgerðaráætlun í úrgangsmálum borgarinnar liggi fyrir í lok árs.