Ferðamenn greiddu 13,7 milljarða með korti

Erlendir ferðamenn eyða töluverðum fjármunum á Íslandi.
Erlendir ferðamenn eyða töluverðum fjármunum á Íslandi. Morgunblaðið/Kristinn

Á síðasta ári nam kortavelta erlendra ferðamanna vegna kaupa í verslunum hér á landi 13,7 milljörðum króna. Af þeirri upphæð var 2,7 milljörðum varið til kaupa í fataverslunum, sem er um 13% af heildarveltu íslenskra sérverslana með föt á síðasta ári. Líklegt er að aðallega sé um að ræða íslenskan útivistarfatnað.

Þetta kemur fram í tölum Rannsóknarseturs verslunarinnar sem birtir nú í fyrsta sinn greiðslukortaveltu íslenskra og erlendra ferðamanna hér á landi, flokkaða eftir tegundum verslana og þjónustu.

Í frétt frá Rannsóknarsetrinu kemur fram að erlend kortavelta í íslenskri dagvöruverslun var um 2,3 milljarðar króna í fyrra. Þá greiddu erlendir ferðamenn með kortum sínum í tollfrjálsri verslun, eða Fríhöfninni, fyrir um 1,4 milljarða eða litlu lægri upphæð en þá sem var varið til gjafa- og minjagripaverslunar, eða um 1,8 milljarða.

Stærsti liður erlendrar kortaveltu hér á landi á síðasta ári var í flokknum gistiþjónusta eða liðlega 14,4 milljarðar. Þá var velta ýmissar ferðaþjónustu (t.d. skipulegra skoðunarferða, pakkaferða, veiðileyfa o.fl.) 8,7 milljarðar, 7,6 milljarðar til veitingahúsa og 4,3 milljarðar til bílaleigna.

3,2 milljarðar í ferþegaflug

Erlend kortavelta vegna farþegaflugs nam í fyrra 3,2 milljörðum. Þess ber þó að geta að kortavelta útlendinga sem kaupa farmiða til Íslands frá heimalandi sínu fer aðeins í gegnum íslenska færsluhirða ef greitt er beint til íslensku flugfélaganna en ekki ef greitt er til erlendrar ferðaskrifstofu eða annars erlends milliliðs.

Mikill vöxtur hefur verið í erlendri kortaveltu það sem af er þessu ári. Þannig má sjá að velta bílaleigna hér á landi vegna erlendra ferðamanna hefur aukist um 77% á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs miðað við sama tímabil í fyrra.

Þá jókst erlend kortavelta vegna heimsókna á söfn og gallerí um 63% á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs miðað við sömu mánuði í fyrra og vegna tónleika og leikhúss um 38%. Verslun hefur einnig notið góðs af þessari auknu erlendu kortaveltu það sem af er ári, en hún jókst um 29% á milli ára.

Kortavelta Íslendinga vegna ferðatengdrar þjónustu innanlands það sem af er þessu ári er svipuð veltunni í fyrra eða heldur minni. Þannig er innlend kortavelta vegna farþegaflugs 5,7% minni fyrstu fjóra mánuði þessa árs en sama tíma í fyrra. Þannig má ætla að annaðhvort ferðist landsmenn minna eða fargjöld hafi lækkað í verði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert