Kaldasti maí í Reykjavík frá 2005

Fyrstu dagarnir í maí voru óvenjukaldir.
Fyrstu dagarnir í maí voru óvenjukaldir. mbl.is/Golli

Tíðarfar í maí var nærri meðallagi á landinu að slepptum fyrstu dögunum sem voru óvenjukaldir að sögn Veðurstofu Íslands. Snjó leysti venju fremur seint um landið norðaustanvert. Þá var hlýjast að tiltölu á Austfjörðum og var úrkoma yfir meðallagi á landinu.

Á vef Veðurstofunnar kemur fram, að meðalhiti í Reykjavík hafi verið 5,8 stig og sé það 0,5 stigum undir meðallagi áranna 1961 til 1990 en 1,2 stigum undir meðallagi maímánaða síðustu 10 ára. Þetta sé kaldasti maí í Reykjavík síðan 2005 en meðalhiti þá hafi verið nær sá sami og nú. Maímánuður 1995 var nokkru kaldari.

Kuldamet á Brúarjökli - 21,7 stiga frost

Meðalhiti á Akureyri var 5,7 stig og er það 0,3 stigum yfir meðallaginu 1961 til 1990 en í meðallagi síðustu tíu ára. Maí 2011 var kaldari á Akureyri en nú.

Hæstur var meðalhiti mánaðarins á Skarðsfjöruvita, 6,8 stig og 6,7 í Önundarhorni undir Eyjafjöllum. Lægstur var meðalhitinn á Þverfjalli, -1,9 stig og -1,8 á Gagnheiði. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Svartárkoti, 1,5 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist á Sauðárkróksflugvelli þann 18. maí, 18,1 stig. Sama dag mældist mestur hiti á mönnuðum stöðvum, 16,2 stig, bæði á Bergsstöðum í Skagafirði og á Akureyri.

Lægstur mældist hitinn -21,7 stig á Brúarjökli þann 2. Svo mikið frost hefur aldrei áður mælst í maí á Íslandi svo vitað sé. Í byggð mældist hitinn lægstur á sjálfvirku stöðinni á Grímsstöðum, -17,6 stig. Er það lægsti hiti sem mælst hefur í byggð á Íslandi í maí.

Úrkoma í Reykjavík mældist 44,9 mm og er það í meðallagi maímánaðar. Á Akureyri mældist úrkoman 49,0 mm en það er meira en tvöföld meðalúrkoma í maí. Þetta er með mesta móti í maí, en þó var úrkoma meiri í maí 2011.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert