Samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallups mælist Framsóknarflokkurinn með 21% stuðning, en hann tapar þremur prósentustigum frá þingkosningunum. Sjálfstæðisflokkurinn tapar einu prósentustigi og fær nú 26%. Stjórnarflokkarnir fengu samtals 51% í kosningunum en mælast nú með 47%.
Þetta kemur fram á vef RÚV.
Þá segir að stjórnarandstöðuflokkarnir bæti við sig fylgi. Samfylkingin bætir við sig þremur prósentustigum og fær nú 16%. Vinstri græn bæta við sig tveimur prósentustigum og mælast nú með 13%. Björt framtíð fer úr átta prósentum í kosningum í tíu prósent í könnuninni og Píratar fara úr fimm prósentum í sex. 62% styðja nýju stjórnina.
Könnunin var gerð í maí og heildarúrtakið var 5.600. Svarhlutfall var 60%. 7% tóku ekki afstöðu og 6% sögðust skila auðu.