„Allir lækir vitlausir“

Það stendur einnig mjög hátt í Lagarfljóti að sögn Guðmundar. …
Það stendur einnig mjög hátt í Lagarfljóti að sögn Guðmundar. Myndin er úr safni. mbl.is/Steinunn

Nokkrir hektarar jarðarinnar Bessastaðagerðis í Fljótsdal eru undir vatni eftir að krapastífla brast í hádeginu með þeim afleiðingum að vatn flæddi úr Bessastaðaá yfir túnin. Bóndanum í Bessastaðagerði tókst með naumindum að koma um 70 kindum í öruggt skjól.

„Það eru allir lækir vitlausir, allar ár og allt. Það er bara svoleiðis,“ segir Guðmundur Pétursson, bóndi í Bessastaðagerði í samtali við mbl.is.

Aðspurður segist Guðmundur ekki vita til þess að hann hafi orðið fyrir tjóni, en ljóst sé að nokkrir hektarar lands hafi farið undir vatn.

„Maður veit náttúrulega ekki hvernig landið kemur undan, hvað það fer mikið af aur og drullu upp á túnið. Maður sér það ekki fyrr en það sjatnar,“ segir Guðmundur og bætir við að það geti tekið nokkra daga.

Vatn flæddi einnig yfir jörðina sem tilheyrir bænum Eyrarlandi, en Guðmundur segir það hafi verið minna.

Kom um 70 kindum til bjargar

„Það er bara svo mikill snjór uppi á Fljótsdalsheiði og hefur ekkert hlánað í vetur fyrr en núna. Svo stíflast þetta einhversstaðar og svo brestur þetta,“ segir Guðmundur.

„Ég man ekki eftir svona miklum snjó um þetta leyti á heiðinni.“ Það byrjaði að snjóa á svæðinu í september sl. og svo fór allt á kaf í nóvember að sögn Guðmundar.

Mjög hlýtt hefur verið á Austurlandi undanfarna daga, en Guðmundur segir að þar sé nú um 20 stiga hiti en hvasst. Veðurstofa Íslands varar við hættu á skriðuföllum og krapaflóðum vegna leysinga og vatnavaxta, einkum á Norður- og Austurlandi.

Óðu alveg í kvið

Bessastaðaá rennur þvert í gegnum jörðina og segir Guðmundur að hann hafi verið með fé sitthvoru megin við ána þegar það fór að flæða. Það óx mjög hratt í ánni í hádeginu og segist Guðmundur hafa með naumindum náð að koma fénu, sem var neðan við ána, í öruggt skjól. Hann var með um 70 kindur á túninu sem hann rak á hús í þrennu lagi. Allt gekk vel með fyrsta hópinn en þegar kom að þeim þriðja þá náði vatnið upp að kvið.

„Það var ekki farið að renna yfir bakkana þegar ég fór af stað [um kl. 13] en svo þegar ég kom með síðasta hópinn, um 10 rollur, þá rétt kom ég þeim yfir. Þær óðu alveg í kvið og lömbin rúmlega í kvið,“ segir Guðmundur.

Hann bendir á að það standi einnig mjög hátt í Lagarfljóti.

Hann segir að Brúarlækur, sem er skammt frá bænum, sé orðin kolsvartur. Guðmundur segist aldrei hafa séð annað eins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert