Fundu fleira ferðafólk

mbl.is/Ernir

Björgunarsveitarmenn sem eru á leið á snjósleðum í Fimmvörðuhálsskála til þess að sækja ítalskan ferðamann rákust á leið sinni á erlent par í Baldvinsskála sem hafði verið þar frá því í gær og fær það væntanlega far niður að Skógum samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Hvolsvelli.

Ítalski ferðamaðurinn lét vita af sér í gærkvöldi í gegnum smáskilaboð og sagðist vera fastur í aftakaveðri í skála á hálendinu og þyrfti á aðstoð að halda. Skilaboðin sendi hann til fólks sem hann hafði verið samferða áður en hann varð viðskila við það og var skilaboðunum í framhaldinu komið til lögreglu.

Fólkið hafði skilið við manninn á Þórsmerkurvegi síðdegis á sunnudag og hafði hann að þess sögn ætlað að ganga yfir Fimmvörðuháls. Um klukkan tíu í morgun hafði maðurinn samband með neyðartalstöð og var hann þá staddur í Fimmvörðuhálsskála heill á húfi. Var hann beðinn að halda kyrru fyrir þar til hjálp bærist.

Þyrla Landhelgisgæslunnar gat ekki flogið á Fimmvörðuháls vegna veðurs en björgunarsveitarmennirnir eiga hins vegar stutt eftir að skálanum. Lögreglan á Hvolsvelli vill hvetja fólk til að skoða veðurspá gaumgæfilega áður en lagt er af stað á Fimmvörðuháls en í dag er sem fyrr segir aftakaveður á svæðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka