Stjórn Strætó bs. hafnaði á fundi sínum í síðasta mánuði að ógilda ákvörðun starfsmanns sem neitaði að taka við framboðinni greiðslu konu sem hugðist ferðast með vagninum og vísaði henni út. Samþykkt var í kjölfarið að setja inn texta um heimiluð vinnubrögð vagnstjóra á vefsvæði Strætó.
Málið minnir á annað sem mbl.is fjallaði um í mars síðastliðnum. Þá var þremur 15 ára stúlkum vísað úr strætisvagni á leið heim úr ísbúð. Vagnstjórinn sakaði eina þeirra um að hafa reynt að greiða með hálfum, og þar af leiðandi ógildum, strætómiða fyrir farið.
Stúlkan þvertók fyrir að hafa vitað af því að miðinn var hálfur og bauðst til að greiða með heilum miða sem hún fékk hjá vinkonu sinni. Vagnstjórinn vildi ekki taka við honum og vísaði öllum stúlkunum þremur út.
„Það er líka alltaf spursmál hvort fólk eigi að geta dregið fram heilan miða eftir á til að borga þegar kemst upp um það, án þess að ég fullyrði nokkuð um að þessi stúlka hafi ætlað að svindla,“ sagði Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó, í samtali við mbl.is í mars.
Í fundargerð Strætó kemur fram að hæstaréttarlögmaður sendi Strætó bs. erindi vegna þess að vagnstjóri neitaði að taka við framboðinni greiðslu fargjalds af skjólstæðingi sínum og vísaði henni út í kjölfarið. Gerðist það í janúar síðastliðnum.
Eins og áður segir hafnaði stjórnin að ógilda ákvörðun vagnstjórans. Þá var farþegaþjónustusviði Strætó falið að setja texta inn á vefsvæði Strætó þar sem fram kemur að vagnstjóra sé heimilt að vísa farþega út sem býðst til að greiða rétt fargjald eftir að hafa orðið uppvís að því að hafa rangt við með greiðslu fargjalds.
„Farþegar bera ávallt ábyrgð á því að vera með gilt og rétt fargjald til greiðslu í Strætó.
Vagnstjórum ber að innheimta fargjöld frá farþegum, ásamt því að fylgjast með hvort fargaldið er gilt.
Ef farþegi verður uppvís að því að svindla á fargjaldi eða greiðir ekki tilsett fargjald er vagnstjóra heimilt að vísa farþega úr vagninum.
Að gefnu tilefni ber að nefna að ef farþegi hefur orðið uppvís að því að hafa rangt við (svindla) með greiðslu fargjalds er vagnstjóra heimilt að vísa viðkomandi út þrátt fyrir að hann bjóðist til að greiða rétt fargjald eftir á,“ segir í textanum sem hefur þegar verið settur inn á vefsvæði Strætó.