Borgarstjórn samþykkti samhljóða á fundi sínum í dag að setja nýtt aðalskipulag fyrir Reykjavík í auglýsingu. Aðalskipulagið gildir til ársins 2030. Ákvörðun borgarstjórnar í dag þýðir að nú verður aðalskipulagið auglýst og gefst borgarbúum og hagsmunaaðilum tækifæri til að koma með athugasemdir innan auglýsts frests.
Þetta kemur fram á vef Reykjavíkurborgar.
Í síðustu viku var haldinn fjölmennur kynningarfundur í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem fulltrúar allra flokka í borgarstjórn kynntu drög að nýju aðalskipulagi.
Endurskoðun á aðalskipulaginu 2001-2024 hefur staðið yfir undanfarin ár og falist í margvíslegri greiningarvinnu, mati valkosta og samráði við íbúa og hagsmunaaðila, að því er segir í tilkynningunni.
Borg fyrir fólk
Borg fyrir fólk er leiðarvísirinn í nýju aðalskipulagi og tekur stefnumótunin mið af því. Í aðalskipulaginu er lögð sérstök áhersla á hverfin og einstaka borgarhluta. Markmiðið er að hverfi borgarinnar verði sjálfbærari, mannvænni og fjölbreyttari þar sem allir félagshópar fá tækifæri til búsetu. Skipulagið miðar að því að íbúar í hverfunum hafi aðgang að verslun og þjónustu eins nálægt sér og kostur er.
Tillagan gerir ráð fyrir að 90% allra nýrra íbúða á tímabilinu rísi innan núverandi marka borgarinnar. Markmiðið er að skapa heildstæðari og þéttari borgarbyggð og nýta þar með betur land og fjárfestingar í gatna- og veitukerfum og þjónustustofnunum. Með þéttari byggð dregur almennt úr vegalengdum, samgöngukostnaði og umhverfisáhrifum samgangna. Verkefni næstu áratuga er að efla og bæta fullbyggja borgina við Sundin og því er uppbyggingu nýrra hverfa í útjaðri slegið á frest.
Græna borgin er eitt af þemum nýs aðalskipulags og er gert ráð fyrir að 40% lands verði opin svæði innan þéttbýlis Reykjavíkur ætluð til útivistar, afþreyingar og leikja. Reykjavíkurborg hefur mikinn metnað til að verða grænni og vistvænni og þar gegna samgöngur mikilvægu hlutverki. Stefnt er að því að hlutdeild almenningssamgangna í ferðum til og frá vinnu vaxi úr 4% í 12% og hlutdeild gangandi og hjólandi vaxi úr 21% í 30%.
Reykjavík er skapandi borg með öflugt og fjölbreytt atvinnulíf. Markmið aðalskipulagsins er að viðhalda fjölbreytni og styrk atvinnulífsins og skapa vaxtarskilyrði fyrir nýjar atvinnugreinar, einkum á sviði hátækni, grænnar orkunýtingar og menningar. Lögð er áhersla á að Reykjavík styrki hlutverk sitt sem höfuðborg landsins og verði forystuafl í vaxandi alþjóðlegri samkeppni um fyrirtæki, vinnuafl og ferðamenn.
Umhverfis- og auðlindastefna nýmæli
Fjölmörg nýmæli eru í aðalskipulaginu, m.a. umhverfis- og auðlindastefna en framkvæmd hennar á að tryggja lífsgæði núlifandi og næstu kynslóða borgarbúa. Áherslan er á sjálfbæra nýtingu auðlinda og að stutt sé við þjónustu vistkerfa en líta má á náttúruauð sem höfuðstól, einskonar bankabók sem þarf að bera vexti um ókomna tíð. Náttúruauðurinn stendur undir þeirri þjónustu sem náttúran veitir hagkerfinu og tryggir lífsgæði borgarbúa um ókomna tíð, að því er segir í tilkynningu.
Stefnunni verður framfylgt í níu málaflokkum með markmiðum og mælikvörðum. Flokkarnir eru: auðlindir, samgöngur, skipulag, gæði umhverfis, loftslagsmál, menntun til sjálfbærni, náttúra og útivist, neysla og úrgangur og rekstur Reykjavíkurborgar en dregið verður markvisst úr umhverfisáhrifum í rekstri borgarinnar. Meginrökin fyrir þéttingu byggðar má finna í stefnunni því áhrifin birtast m.a. í heilnæmum samgöngum.
Eitt af markmiðum umhverfis- og auðlindastefnunnar er að draga úr úrgangi til urðunar og að endurnýting og endurvinnsla verði aukin. En gert er ráð fyrir að 80% af pappír og pappa, 60% af plasti og allur lífrænt niðurbrjótanlegur úrgangur verði endurnýttur árið 2020.
Náttúruauðlindir Reykjavíkur eru skilgreindar í aðalskipulaginu en þær eru: fjöll, heiðar, graslendi, skóglendi, neysluvatn, jarðvarmi, tún og engi, bújarðir, strandlengja, hafið, græn svæði og tjarnir, votlendi, vötn og ár. Þessar náttúruauðlindir eru höfuðstóllinn sem leggur grunninn að þjónustu vistkerfa.
Þjónusta náttúrunnar birtist á fjölbreyttan hátt í Reykjavík. Sem dæmi má nefna að hægt er að renna fyrir lax í Elliðaánum, ekki þarf að meðhöndla neysluvatnið sem kemur frá vatnsverndarsvæðinu, en það eru orðin sjaldgæf gæði í borgum. Loks má nefna útivist á grænum og opnum svæðum í hreinu lofti.
Þá segir í tilkynningunni að mikilvægt sé fyrir borgarbúa að þekkja þær megináherslur sem birtist í aðalskipulaginu því þar megi finna framtíðarsýn sem komi öllum Reykvíkingum við.