Björgunarsveitir frá Hellu, Hvolsvelli og Vík hafa verið kallaðar út til að sækja ítalskan göngumann sem staddur er í skála Útivistar á Fimmvörðuhálsi. Sendi hann boð með neyðartalstöð og sagðist ekki treysta sér til að halda ferð sinni áfram sökum veðurs en það er, samkvæmt lýsingum, snælduvitlaust á hálsinum.
Þetta kemur fram í frétt frá Landsbjörg.
Færið upp hina hefðbundnu leið upp Fimmvörðuháls er afar erfitt um þessar mundir, mikil aurbleyta er á vegum og slóðum. Var því ákveðið að sækja manninn snjóleiðina, þ.e. yfir Mýrdalsjökul og eru nú menn á fjórum vélsleðum lagðir af stað. Líklega verða þeir komnir að skálanum eftir 2-3 klukkustundir. Til vara er svo verið að senda bíla og göngufólk upp hálsinn sem munu sækja manninn ef sleðarnir komast ekki alla leið.
Eins og fyrr segir er slæmt veður á Fimmvörðuhálsi og ekkert útlit fyrir að það skáni í bráð.