„Þetta eru kærkomin umskipti frá því sem var. Við kölluðum veðrið eftir kosningar Jóhönnuhret en þetta er Bjarnablíða,“ segir Erlingur B. Thoroddsen, hótelstjóri á Hótel Norðurljósum á Raufarhöfn. Hann tekur fram að ekki sé víst að allir séu sammála um þessa nafngift.
Veðurblíða hefur verið á norðausturhorni landsins frá því fyrir helgi. Erlingur segir að tími hafi verið kominn til. Eftir milt veður frá áramótum hafi ríkt kuldi frá því fljótlega eftir öskudag og fram undir þetta. „Nú er loksins komið sumar.“
Léttara er yfir fólki í veðurblíðunni, bæði í klæðnaði og fasi. Annars segir Erlingur að það sé svo mikið að gera hjá öllum að fólk sjáist lítið á ferli. Einhverjir bátar voru á sjó í gær og unnið í frystihúsinu. Það er helst að ferðamenn séu á kreiki.
Veðurstofan spáir áframhaldandi sunnanáttum næstu daga og því má búast við að áfram verði bjart og hlýtt á Norðausturlandi.